Skráning skipa

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 15:24:44 (1798)

2001-11-20 15:24:44# 127. lþ. 32.3 fundur 285. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa. Markmið frv. er að hægt sé að skrá íslensk fiskiskip svokallaðri þurrleigu.

Ég vil í upphafi máls míns segja að ég hefði talið betra ef frv. hefði verið sett öðruvísi upp en það er, samanber þessa 1. gr. a og síðan málsgreinar sem allar hefjast undir fjöldamörgum liðum, a-, b- og c-lið, hver í sínu lagi. Það hefði verið skilmerkilegra að setja það upp öðruvísi, t.d. 1. gr. a, b og c. En það er nú annað mál og kannski sérviska mín.

Um efni frv. vil ég segja að í fyrsta lagi finnst mér gæta að sumu leyti framsetningar eins og við höfum ekki átt kost til veiða á ýmsum heimildum. Við höfum jú stundað rækjuveiðar á Flæmingjagrunni á skipum sem gerð eru út af Íslendingum en hafa verið færð undir fána annarra ríkja, og nýtt þar veiðiheimildir. Það er svona hálfpartinn látið að því liggja í frv. að við munum ekki geta nýtt þær heimildir, eins og segir hér:

,,Dæmi um veiðar sem Íslendingar hafa sótt í eru rækjuveiðar undir rússneskum fána í Barentshafi, rækjuveiðar undir fánum Eystrasaltsríkjanna á Flæmingjagrunni og þorskveiðar undir færeyskum fána í Barentshafi.``

Síðan segir:

,,Veiðar þessara skipa yrðu því hrein viðbót við þau verkefni sem íslenski flotinn getur nú stundað.``

Mér finnst þetta dálítið skrýtin uppsetning vitandi það, og sérstaklega ætti náttúrlega hæstv. samgrh. að vita það, að íslensk skip hafa verið að stunda þarna veiðar. Þau eru að vísu skráð í öðrum löndum en eignarhaldið á þeim er íslenskt. Þau hafa verið færð undir eignarform sem við höfum oftast nær kallað skúffufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem stofnuð eru í öðrum löndum til þess að skrá skip undir. Ég held að ekki sé hægt að halda því fram í þessu frv. að t.d. rækjuveiðarnar á Flæmingjagrunni verði eingöngu stundaðar samkvæmt þessari þurrleigu sem hér er lögð til.

Það má líka spyrja um önnur áhersluatriði: Falla rækjuveiðarnar á Flæmingjagrunni, eins og þær eru stundaðar nú eða eins og þær mundu verða stundaðar samkvæmt þessari uppsetningu frv., þ.e. að skipin verði á þurrleigusamningum, undir þá hugsun í frv. að þessar veiðar skaði ekki hagsmuni Íslendinga? Ég ætla að leyfa mér að draga það mjög í efa.

Það er einfaldlega svo að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að veiða á Flæmingjagrunni undir svokölluðu kvótakerfi. Við höfum ekki fullnýtt þær heimildir okkar á Flæmingjagrunni, t.d. á síðasta ári, ef ég veit rétt. Aðrar þjóðir hafa hins vegar aflað mjög mikið og það hefur verið gert í gegnum svokallað dagakerfi, sóknardagakerfi. Það er útgerðarform sem m.a. eigendur íslenskra skipa hafa sóst eftir að komast í undir hinum ýmsu fánum og undir ýmsum heimildum. Veiði skipanna hefur verið hlutfallslega meiri en menn gerðu ráð fyrir eða aukning á veiðum þessara erlendu skipa, þ.e. þessara íslensku erlendu skipa, ef það er hægt að orða það þannig, og annarra skipa frá viðkomandi löndum hefur verið meiri en menn gerðu ráð fyrir. Þau skip hafa verið að vinna sér inn veiðireynslu og þar með hafa íslensk skip unnið sér inn veiðireynslu fyrir erlendu ríkin því að sú veiðireynsla sem fæst á fána ríkis, hvort sem það er undir því formi sem nú tíðkast eða samkvæmt þessu þurrleigufyrirkomulagi sem boðað er í frv., verður veiðireynsla viðkomandi ríkis. Hún verður ekki veiðireynsla Íslands.

[15:30]

Ég ætla að leyfa mér að draga mjög í efa að það sem talað er um hér, m.a. Flæmingjagrunnið, sérstaklega með tilliti til þess að við Íslendingar erum þar einir bundnir kvóta á meðan aðrar þjóðir hafa aukið aflamagn sitt ár frá ári, að fyrirkomulagið þar, bæði veiðar okkar og eins þessi sókn okkar í veiðirétt annarra ríkja, þjóni hagsmunum Íslendinga. Það er vel hægt að færa fyrir því rök. Kæmi til uppstokkunar á veiðiheimildum á Flæmingjagrunni þá mundu önnur ríki sem þar eru að veiðum njóta þess á okkar kostnað. Það er mjög líklegt að niðurstaðan yrði sú ef tekið yrði til við að endurskoða aflabrögð á Flæmingjagrunni. Sem betur fer bendir ekkert til þess að veiðin þar fari minnkandi þrátt fyrir mikla sókn, svo merkilegt sem það er. Það gæti hæglega komið þannig út að veiðar sem þar eru stundaðar, sem samkvæmt þessu frv. ættu þá að vera heimilar sérstaklega í þurrleigu, ynnu beinlínis gegn hagsmunum okkar, þ.e. ef við horfum kalt á að það séu hagsmunir Íslands að hafa sem mesta veiðireynslu á viðkomandi svæðum.

Ég lít svo á að stjórnvöld þessa lands vilji eiga þar sem mesta hlutdeild. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það m.a. vegna þess að allir þeir samningar sem við höfum gert um veiðar innan og utan lögsögu, um svokallaða flökkustofna eða stofna í úthafinu, hafa að langmestu leyti byggst á veiðireynslu. Það hefur ævinlega verið veiðireynslan sem ráðið hefur réttinum í samningum um skiptingu á stofnum milli ríkja. Nægir þar að nefna máli mínu til stuðnings svokallaðar veiðar Evrópusambandsins á norsk-íslenskri síld. Þeir voru t.d. taldir hafa skrifað upp afla sinn í meiri mæli en þeir höfðu veitt og gerðu síðan kröfu um veiðirétt.

Sama má segja um þá stefnu sem við Íslendingar höldum úti, að setja kraft í veiðar á kolmunna. Við erum beinlínis að gera það til að skapa okkur hefð, skapa okkur rétt, skapa okkur samningsstöðu upp á rétt okkar í framtíðinni þó að við vitum fullvel að Norðmenn, Rússar og Evrópusambandsríkin hafi ímugust á því hve miklum árangri við höfum náð þar á undanförnum árum. Þetta er auðvitað vísvitandi gert til þess að byggja undir veiðirétt okkar og sannar þá fullyrðingu sem ég hef haldið hér fram, að þegar við tökum að okkur að veiða fyrir önnur ríki af miklum krafti og þeirri þekkingu sem við getum boðið fram þá getum við undir vissum kringumstæðum undirbúið og byggt upp veiðirétt annarra ríkja. Það getur komið okkur mjög illa þegar fram í sækir, þegar verið er að tala um uppskiptingu veiðiréttar. Þetta vildi ég láta koma hér fram.

Þetta frv. er þannig upp byggt að í 1. gr. er fyrst talað um skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að fiskiskip sem er skráð er á íslenska skipaskrá fáist skráð yfir á þurrleigusamning í erlenda skipaskrá. Þar er upptalning á ýmsum skilyrðum sem þarf að uppfylla. Þar segir m.a. í g-lið 1. efnismgr.:

,,aðrar upplýsingar sem samgönguráðherra getur kveðið á um í reglugerð.``

Mig langar í framhaldinu að varpa fram spurningu til hæstv. samgrh.: Hvaða aðrar upplýsingar er átt við sem samgrh. á að geta kveðið á um í reglugerð? Hverjar eru þær? Og hvaða aðrar upplýsingar sem samgrh. getur kveðið á um í reglugerð gæti þurft að krefjast til viðbótar við það sem talið er upp í a- til g-liðar 2. efnismgr.? Ég ætla að lesa þá upptalningu þannig að hæstv. ráðherra átti sig á hvaða annarra upplýsinga hann mundi hugsanlega krefjast. 2. efnismgr. 1. gr. hljóðar svo:

,,Áður en Siglingastofnun Íslands veitir heimild til þurrleiguskráningar skips skv. 1. mgr. skal liggja fyrir staðfesting sjávarútvegsráðuneytisins á því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a. skip sem sigla undir þjóðfána Íslands gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur``.

Ég ætla að lesa þetta aftur, hæstv. forseti:

,,a. skip sem sigla undir þjóðfána Íslands gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur``.

Nú vill svo til að allar þær veiðar sem taldar eru upp í greinargerðinni eru stundaðar nú þegar af íslenskum skipum. Þá spyr ég: Hvernig telur ráðherrann að þessi málsgrein, þ.e. þessi stafliður hennar, takmarki það nú þegar skipin verða sett undir þurrleigu?

Því næst er b-liður, svohljóðandi:

,,b. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur grafa ekki undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum sem ákveðnar eru og beitt er í samræmi við reglur þjóðaréttar``.

Jú, ég held að við þurfum ekki að velta þessu mikið fyrir okkur. Þetta eru hinar almennu reglur sem m.a. við höfum undirgengist og við teljum alþjóðarétt.

,,c. verndunarsjónarmið mæla ekki gegn þeim veiðum sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,

d. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur eru í samræmi við þær reglur sem viðeigandi alþjóðasamningar mæla fyrir um``.

Mig langar að fá nánari skýringu á þessum lið.

,,e. sýnt þykir að ríkið sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í muni virða skyldur sínar sem fánaríki``.

Sýnt þykir, segir hér. Hvernig leggja menn mat á það? Mig langar til að fá skýringar á því og hvort könnuð hafi verið einhver sérstök viðmið í samgrn. sem sýni að t.d. þær þjóðir sem við höfum þegar flaggað skipum undir, þó að óbeint sé, hafi haldið allar sínar skyldur gagnvart þeim aðilum. Eða er þarna átt við eitthvað annað?

,,f. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur ganga ekki að öðru leyti gegn hagsmunum Íslands``.

Ég hef vikið örstutt að því hvaða hagsmunir Íslands það gætu verið, m.a. að við værum að vinna öðrum ríkjum inn veiðireynslu, sem gætu síðar gengið þvert gegn hagsmunum okkar. Þá spyr ég: Hverjir munu leggja mat á þá hagsmuni okkar? Er það sjútvrn. eða ... (Gripið fram í: Árni M. Mathiesen.) Hæstv. sjútvrh. Já, það var og. (Gripið fram í.) Já, það kann vel að vera að honum sé falið það, ég spyr.

Síðan segir í g-lið:

,,önnur skilyrði sem sjávarútvegsráðherra getur kveðið á um í reglugerð.``

Í ljósi þessarar upptalningar minnar þá spyr ég um þennan g-lið 2. efnismgr. 1. gr. Hver eru hugsanleg viðbótarskilyrði við þá liði sem ég hef lesið hér upp?

Síðan kemur 4. efnismgr. 1. gr., sem ég hefði nú talið að færi betur á að kalla 1. gr. d. Sú málsgrein fjallar um heimild til þurrleiguskráningar. Þar segir m.a. í c-lið:

,,skilyrði fyrir heimild til þurrleiguskráningar skv. 2. mgr. er ekki lengur uppfyllt að mati sjávarútvegsráðuneytisins``.

Þá kemur að hæstv. sjútvrh., Árna M. Mathiesen, eins og kallað var hér úr salnum áðan. Í framhaldi af því að þetta frv. tengist bæði sjútvrn. og samgrn. mundi ég vilja vita hvort hæstv. ráðherra teldi ekki eðlilegt að þetta frv. færi bæði til samgn. og sjútvn.

Síðan er þarna málsgrein sem mig langar að fá góða skýringu á. Það er næstsíðasta efnismgr. 1. gr. Hún hljóðar svo:

,,Þegar heimild skips til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður skal Siglingastofnun Íslands fara fram á það við erlendu skipaskrána að skipið verði tafarlaust afmáð af henni.``

Ég lít svo á að ef sjútvrh. kæmist að þeirri niðurstöðu að skilyrðin fyrir þurrleigusamningnum væru ekki til staðar þá mundi íslenska ríkið gera kröfu til þess að skipið yrði tafarlaust tekið af hinni erlendu skipaskrá. Þannig virðist það bara samkvæmt orðanna hljóðan, það verði tafarlaust afmáð af henni. Er það þá gert í hafi? Á að krefjast þess í hafi að skipið sé tekið af hinni erlendu skipaskrá? Mér finnst þetta dálítið skrýtið orðalag. Þess vegna held ég að menn þurfi einfaldlega að velta því fyrir sér hvort þetta orðalag standist. Ef menn gera þetta að lögum og standa frammi fyrir því að þurfa að beita því, stenst þá þetta orðalag hina raunverulegu framkvæmd, að hægt sé að taka skip fyrirvaralaust af skrá að kröfu Íslands? Þarna er gerð krafa til þess að viðkomandi fánaríki viðurkenni rétt Íslands til að krefjast þess að skipið sé tekið af hinni skráðu þurrleigu. Þá gæti komið upp réttarástand þar sem skip væri í hafi með áhöfn sem ekki samræmdist íslenskum lögum.

Það er einfaldlega þannig að fánaríkin gera yfirleitt mjög stífar kröfur til þess að skip séu mönnuð eftir þeim kröfum sem eru í viðkomandi ríki. Til dæmis í Eystrasaltslöndunum, nema það hafi þá breyst síðustu þrjú árin. Ég skal ekki fullyrða um það. Að vísu hafa orðið miklar breytingar í Eystrasaltslöndunum sl. þrjú ár en fyrir þann tíma var krafan a.m.k. að skip sem ætluðu að stunda veiðar undir fána þeirra ríkja væru mönnuð yfirmönnum sem hefðu ríkisfang í því ríki, skipstjórum, stýrimönnum og vélstjórum. Ef íslenskir skipstjórnarmenn komu þar um borð voru þeir skráðir fiskilóðsar, réðu að vísu öllu um veiðarnar en það gat samt verið ágreiningsmál hvar yfirráðunum sleppti og hvar yfirráðin hjá fánaríkisskipstjóranum tóku við. Í raun var það auðvitað fánaríkisskipstjórinn sem bar ábyrgð á skipinu ef eitthvað bar út af. Þannig hygg ég að það sé í mjög mörgum ríkjum, að gerð sé afar stíf krafa um mönnun, yfirleitt mun stífari krafa en gerð er á Íslandi. Við gerum kröfur um að það skuli vera íslenskur skipstjóri að lágmarki og ef ég man rétt þá skuli aðrir yfirmenn skilja íslenskt mál og allar fyrirskipanir. Við erum náttúrlega undir EES-samningunum þannig að ég hygg að í mörgum þeirra landa sem menn eru að hugsa um í þessu frv., eins og það er upp sett, séu gerðar mun stífari kröfur en við Íslendingar gerum.

Þetta er það sem ég ætlaði að víkja hér að í fyrstu. Ég mun kannski koma síðar og ræða málið en ég bið í upphafi máls um skýringar á því sem ég hef spurt um.