Jöfnun námskostnaðar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:29:05 (1914)

2001-11-21 15:29:05# 127. lþ. 33.10 fundur 290. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi DSn
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Fyrirspyrjandi (Drífa Snædal):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. menntmrh. og ágætis innlegg hv. þingmanna. Það er líka full ástæða til að hrósa þeim framförum sem orðið hafa á undanförnum árum í þessu efni en eins og áður segir hafa komið fram gallar á þessari reglugerð þar sem hún þjónar ekki þeim tilgangi sínum að jafna aðstöðu til náms að öllu leyti.

Mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram í svari hæstv. menntmrh. hvernig hann ætli sér að tryggja að jafnrétti til náms ríki í raun hér á Íslandi. Á undanförnum árum hefur höfuðborgarsvæðið sogað til sín fleiri og fleiri námsgreinar sem þýðir einfaldlega að fleiri og fleiri námsmenn þurfa að flytja búferlum til að geta stundað nám sitt. Ráðstöfun til jöfnunar á námskostnaði gegnir því stóru hlutverki í að jafna aðstöðu til náms. Ég skora á hæstv. menntmrh. að endurskoða reglugerð um jöfnun námskostnaðar hið fyrsta svo að hún þjóni betur tilgangi sínum.

Hvað varðar seinni hluta fyrirspurnar minnar þá beinist hún að því hvort námsstyrkur geti komið til frádráttar á námsláni sem nemendur njóta þannig að þeir mundu ekki verða aðnjótandi bæði styrks og láns heldur að styrkurinn mundi koma til frádráttar af láninu, þar sem lán er lán en styrkur er styrkur.