Jöfnun námskostnaðar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:30:05 (1915)

2001-11-21 15:30:05# 127. lþ. 33.10 fundur 290. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Vegna lánsins og námsstyrksins er nauðsynlegt að breyta lögum ef menn ætla að huga að því að hugmynd hv. þm. nái fram að ganga. Reglugerðarbreyting dugar þannig ekki í því efni og ég er ekki með slíkt lagafrv. á prjónunum.

Varðandi hins vegar það að jafna aðstöðumuninn og að námið sé að flytjast í vaxandi mæli til Reykjavíkur er það hluti af því að ekki er hægt að bjóða nám á sömu stöðum og áður var unnt vegna þess hve almennt fólki hefur fækkað og það á ekkert skylt við þá stefnu sem er fylgt í menntamálum eða hvernig staðið er að þeim þáttum. Það er miklu frekar að stuðla þá að atvinnuuppbyggingu á svæðum þar sem fólki fækkar, t.d. á Austurlandi, þar sem Vinstri grænir, þ.e. flokkur þingmannsins, hafa verið andvígir allri atvinnuuppbyggingu og ekki viljað leggja neitt af mörkum til að styrkja forsendur fyrir atvinnulífinu (Gripið fram í: Þetta er rangt, þetta er útúrsnúningur.) sem er til þess fallið að efla byggðina og þar með skólastarfið. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Má ég ekki svara þessari fyrirspurn? (JB: Hæstv. ráðherra á ekki að vera með útúrsnúninga.) Ég er ekki með neina útúrsnúninga, hv. þm. Þetta eru staðreyndir. Það er staðreynd að flokkur þingmannsins hefur staðið gegn öllum framfaraskrefum til þess að efla almennt forsendur búsetu og þar með skólastarfs í landinu, og dvalarstyrkir og jöfnunarstyrkir leysa ekki þennan vanda. En vandinn verður meiri ef stefna flokksins nær fram að ganga og menn leggjast á þær árar, eins og flokkurinn hefur gert, að reyna að festa byggðirnar í einhverja þröngsýnisfjötra sem flokkurinn fylgir. (Gripið fram í.)