Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 19:07:13 (1935)

2001-11-21 19:07:13# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var alveg furðuleg ræða. Hv. þm. segist ekki sjá ástæðu til að þvarga um þessa hluti. Ég veit ekki betur en hv. þm. hafi hafið þessa umræðu, það var hann sem bað um það. Og svo allt í einu sér hann ekki ástæðu til að þvarga um þetta. Ég hélt að þetta væri alvörumál. Mér heyrðist þingmaðurinn tala þannig að þetta væri alvörumál.

Hvað segir það okkur þó 8., 9. og 10. síða í Lögbirtingablaðinu sé uppfull af uppboðsauglýsingum? Ég bara spyr: Hvenær hefur ekki verið eitthvað af auglýsingum í Lögbirtingablaðinu um uppboð? Þetta er blað til þess að auglýsa uppboð. Auðvitað er misjafnlega mikið, fólk hefur verið að fjárfesta yfir hausinn á sér. Og það er ekkert efnahagskerfi sem getur komið í veg fyrir það. Það er frjálsræði í landinu og menn hafa gengið of langt og þá kemur að skuldadögunum.

Það er ekki vegna atvinnuleysis í landinu að þetta fólk lendir á síðum Lögbirtingablaðsins. Hv. þm. gat ekki bent á það. Mér þætti líka fróðlegt, herra forseti, að fá að sjá þessi 5,6% hjá hv. þm., að það séu einhver sérstök markmið að alls ekki megi fara upp fyrir 5,6%, þá sé allt komið í voða. Þetta er eitthvert markmið sem hv. þm. hlýtur þá að upplýsa hér. Eftir því sem mér er sagt hefur ekki verið samið um nein ákveðin markmið þar sem eru strik, rauð eða gul strik eða hvað þau heita. Auðvitað setja menn sér þau markmið að reyna að halda niðri verðbólgunni þannig að laun og kaupmáttur haldist eins og hann hefur verið eða samið hefur verið um.

En við sjáum það og höfum séð að laun á ýmsum sviðum eins og í opinbera geiranum hafa hækkað allt of mikið. Það gerir það að verkum að við erum í vandræðum með gengið þessa stundina. En það er alls engin hætta á ferðum, síður en svo. Við búum við sterkt efnahagslíf og við þurfum engu að kvíða.