Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 19:09:37 (1936)

2001-11-21 19:09:37# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[19:09]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég talaði um að þvarga, ég kalla það að þvarga þegar menn ræða um mál eins og þeir viti um þau án þess að gera það.

Málið stendur nákvæmlega þannig eins og ég lýsti áðan, að samningar eru miðaðir við 5,6% verðbólgu eins og hún var þegar samningar voru gerðir í febrúar árið 2000. Það er í höndum einstakra verkalýðsfélaga á hvern hátt þeir bregðast við. Bregðast verður við yfir 8% verðbólgu eins og ég sagði áðan. Það eru engir sérfræðingar sem geta gefið ráð um það hvernig hægt er að kýla niður verðbólgu á svo skömmum tíma sem er fram í febrúar. Og það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Ég hef það.

Ég endurtek að 8., 9. og 10. nóvember voru heilsíðuauglýsingar í dagblöðum um nauðungaruppboð hjá einstaklingum. Svo það fari ekki á milli mála.

Það er mikið áhyggjuefni og ótrúlegt að þingmaður fyrir kjördæmi þar sem birtast auglýsingar varðandi nauðungaruppboð skuli ekki hafa meiri áhyggjur af þeim málum en hann virðist gera.

Ég segi það enn og aftur að ég hef miklar áhyggjur af því hvert ástandið verður þegar kemur fram í febrúar á næsta ári. Og ég bið þá menn að muna það sem ég hef sagt hér.