Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:29:01 (2155)

2001-11-29 11:29:01# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta seinna atriði sem orðið hefur tilefni orðaskipta milli mín og hv. þm. þá laut athugasemd mín eingöngu að því að æskilegt er að menn tali skýrt og noti hugtök sem eru gagnsæ og hafa tiltekna merkingu. Alþjóðasamfélagið er notað við ýmis tilefni og tekur ekki alltaf til sömu hluta. Þannig er t.d. það sem menn kalla hina víðtæku alþjóðlegu samstöðu gegn hryðjuverkum. Það er ekki lögformlegur skilgreindur aðili. Það er hins vegar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og Sameinuðu þjóðirnar. Það er Stofnunin um öryggi og samvinnu í Evrópu eða NATO eða önnur slík viðurkennd fyrirbæri sem menn vita fyrir hvað standa.

Mér finnst stundum að menn grípi til þessa hugtaks alþjóðasamfélagsins þegar þeir vilja ekki vera nákvæmlega skýrir í máli sínu vegna þess kannski að menn eru að sveigja fram hjá því að tala um hlutina eins og þeir nákvæmlega eru í Afganistan núna og þeir eru þannig að aðgerðirnar eru ekki á vegum eða í nafni neinnar viðurkenndrar alþjóðastofnunar. Þær eru á vegum Bandaríkjamanna, Breta og einstakra hópa eða fylkinga innan Afganistan.

Varðandi tillöguna um málefni Palestínu þá kemur það ekkert við mig öðruvísi en þannig, herra forseti, að mér er ákaflega annt um þennan málstað og ég fagna því og ætla að taka fram í ræðu minni á eftir að ég fagna m.a. ummælum hæstv. utanrrh. um sjálfstætt ríki Palestínumanna og ég tel ákaflega mikilvægt að við reynum að verja sem breiðasta og almennasta samstöðu um þetta mál á Alþingi. Stefnumótun Alþingis 1989 var ákaflega merkileg og framsækin þar sem í henni fólst m.a. ákveðin viðurkenning á PLO og ég hygg að Ísland hafi verið fyrst ríkja t.d. í þessum hópi á Vesturlöndum til að ganga jafnlangt og þar er gert í sambandi við rétt Palestínumanna til að stofna eigið ríki og rétt flóttamanna til að snúa heim.

Það sem er veikara í tillögu Samfylkingarinnar er t.d. skírskotunin til Óslóarsamkomulagsins sem við vitum vel að margir Palestínumenn eru óánægðir með og er að mörgu leyti málamiðlun frá afdráttarlausustu samþykktum Sameinuðu þjóðanna um þessi réttindi Palestínumanna. En þetta ræðum við auðvitað allt saman og skoðum í framhaldinu.