Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 12:50:53 (2168)

2001-11-29 12:50:53# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[12:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem fær mig til að bregðast við ræðu þingmannsins eru orð hans um sendiráð í Japan. Mér er farið að leiðast svolítið þetta hálfgerða nöldur út af stjórnarandstöðunni og sendiráðsmálum.

Það er þannig, herra forseti, að ákvörðun um að opna sendiráð er eitt og útfærsla og kostnaður við þann gjörning annað. Ríkisstjórnin ákvað að útfæra það þannig að fjárfesta í húsnæði. Það getur verið rétt ákvörðun en hún getur líka verið röng. Þetta var val ríkisstjórnarinnar. Stofnkostnaður fer ekki í rekstur, hvorki hér heima né úti. Þessar miklu fjárfestingar byggjast á ákvörðunum stjórnvalda og það verður ekki fjárfest í öðru eða annars staðar fyrir sömu peninga.

Ég býst við að umræðan hafi verið um þetta, þótt ég hafi reyndar ekki verið viðstödd umræðu um sendiráðið í Japan í þessum sal. Ég minni á að þegar ákvörðun var tekin á fjáraukalögum um að verja 800 millj. kr. til þessara fjárfestinga vegna sendiráðs í Japan þá sat Samfylkingin hjá. Hún lagðist ekki gegn því en hún studdi það heldur ekki og það þýðir ekkert að vera með viðkvæmni yfir því þó öll mál séu ekki studd, vegna þess að það er handhafi framkvæmdarvalds sem ber ábyrgðina og velur sína leið. Um þá leið er ekki endilega góð sátt en það er sú leið sem hann vill fara. Við bara virðum það. Við skulum hafa þessa umræðu betur á hreinu en verið hefur.