Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:30:47 (2198)

2001-11-29 15:30:47# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Orsök þess að við erum að ræða möguleikann á að enduskoða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða að öðrum kosti íhuga að sækja um aðild að Evrópusambandinu er einmitt eins og hv. þm. bendir á, að komið hafa til ný svið í hinni evrópsku samvinnu sem eru okkur ákaflega mikilvæg, svið sem við höfum ekki aðgang að í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er þess vegna sem flokkar eru búnir að taka það á dagskrá að ræða og brjóta til mergjar hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er til þess m.a. að njóta ávinnings af þeirri nýju samvinnu. Við sáum hvað það var erfitt fyrir okkur að ná Schengen-samkomulaginu í höfn og vísast gekk það bara vegna þeirrar fortíðar sem við höfðum í því máli. Það verður erfitt fyrir okkur að semja um önnur svið. Og það er erfitt fyrir utanríkisþjónustu okkar að sinna þessum nýju verkefnum. Mér er til efs að ýmsar ákvarðanir sem stundum eru teknar um þau nýju svið séu teknar með þeim hætti að hægt sé að verja þær frá sjónarhóli lýðræðisins. Ég held að starfsmenn og embættismenn utanríkisþjónustunnar þurfi stundum að taka ákvarðanir sem má deila um hvort þeir hafi umboð til.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um Palestínu, þá kann það auðvitað vel að vera að þetta séu bara skoðanir hans sjálfs en hann er enginn prívatmaður. Hann er fulltrúi í utanrmn. Hann er oftsinnis talsmaður Sjálfstfl. í utanríkismálum þannig að orð hans hafa vægi þó að ég sé ekki að yfirfæra þau á Sjálfstfl. í heild. Hann spyr eða segir að ég hafi sökum langrar setu á þingi átt að hafa heyrt þessi viðhorf áður. Auðvitað hef ég heyrt örla á vild hans gagnvart Palestínu, en ég hef aldrei heyrt nokkurn þingmann, hvorki hér né annars staðar, halda því fram að aðskilnaðarstefna Ísraelsmanna gangi lengra en aðskilnaðarstefna Suður-Afríkumanna á sínum tíma. En ég dreg það ekki í efa.