Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:28:59 (2217)

2001-11-29 16:28:59# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það eru margir gallar sem hægt er að finna innan Evrópusambandsins. Einn af þeim göllum sem menn hafa vakið máls á innan sambandsins er skortur á nægu lýðræði. En öll þróun innan sambandsins hefur einmitt verið í þá átt að bæta úr því. Þar af leiðir m.a. minnkandi möguleika okkar Íslendinga á að ná okkar hlut og hafa þau áhrif sem við höfðum áður vegna þess að ákvörðunarferlið er breytt nú frá því sem áður var með því að Evrópuþingið hefur miklu meira vægi en áður. Það hefur núna í vissum tilvikum lokaorðin sem ekki var áður. Við höfum enga aðkomu að því.

Varðandi þau svæði sem hv. þm. nefndi hérna áðan, Japan, Suður-Ameríku og ákveðna parta af Asíu, þá er það svo, eins og hv. þm. á að vita eftir sameiginlega fundi okkar í Brussel með EFTA/EES-nefndinni, að Evrópusambandið er að gera samninga --- ég veit ekki hversu langt það er komið --- en það er að gera samninga um viðskipti við þessi svæði sem einmitt fella niður þessa tollamúra. Og ég er sammála honum um að það er nauðsynlegt að berjast fyrir því eins og við munum auðvitað gera það.