Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:54:00 (2245)

2001-11-29 17:54:00# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einfaldlega rétt hjá hv. þm. að lýðræðið innan Evrópusambandsins er ekki eins og best verður á kosið. Um hvað hefur umræðan snúist síðustu árin innan Evrópusambandsins? Hvað var t.d. drifhvati umræðunnar sem var undanfari kosninganna í Danmörku? Það var einmitt þessi lýðræðishalli, það er alveg rétt. Það þýðir hins vegar ekki, herra forseti, að Evrópusambandið sé ekki á vetur setjandi vegna þess að við hljótum líka að berjast fyrir því að bæta þetta lýðræði.

Það er einmitt það sem er að bera árangur núna. Í vaxandi mæli er lýðræðið að aukast innan Evópusambandsins. Lýðræðishallinn er að minnka. Evrópuþingið er að fá miklu meira vægi.

En mér finnst merkilegt að hlusta á einn af forustumönnum íslenskra launþega tala um að lýðræði og frelsi skipti ekki máli varðandi Evrópusambandið þegar ljóst er að ekkert hefur fært hans fólki jafnmiklar félagslegar réttindabætur á síðustu árum og einmitt það sem komið hefur frá Brussel, þar sem valdið er að hrannast upp, eins og hv. þm. sagði. Sem betur fer fyrir hans fólk, segi ég.