Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:25:10 (2257)

2001-11-29 18:25:10# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Kostnaðaráætlun utanrrn. vegna þessa fundar er 260 millj. Síðan er gert ráð fyrir 50 millj. til öryggisgæslu. Við getum að sjálfsögðu endalaust farið í samanburð af því tagi sem hv. þm. hefur tamið sér. Mér finnst afskaplega undarlegt að ástunda slíka iðju, það er mitt álit. Það mun alltaf verða svo að við getum ekki leyst öll viðfangsefni. Við getum líka sagt sem svo: Ber okkur þá ekki að hætta við friðargæslu, hætta við þróunaraðstoð og margt fleira til að leysa betur þau mál sem að steðja innan lands? En við skulum jafnframt muna að það að vera sjálfstæð þjóð og að afla tekna sem sjálfstæð þjóð krefst ákveðinnar alþjóðasamvinnu. Ef við færum alltaf út á þá braut sem hv. þm. fer út á þá held ég að efnahagur Íslendinga mundi hrynja. Hann horfir alltaf inn á við en vill lítið gera til að afla þjóðinni tekna. Hann vill ekki fara í stóriðju, hann vill ekki fara í fiskeldi, hann vill ekki vera í Atlantshafsbandalaginu. Sú sýn er afskaplega þröng að mínu mati. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að ef sýn hv. þm., bæði til alþjóðamála og efnahagsmála, yrði ríkjandi hér á landi, þá hefðum við ekkert til að hjálpa því fólki sem er illa statt. Þetta er aðalatriði málsins.

Þar fyrir utan finnst mér þessi samanburðarfræði þingmannsins ekki vera honum til sóma.