Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:35:14 (2365)

2001-12-04 13:35:14# 127. lþ. 42.91 fundur 192#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að það er hörmulegt að svo skuli vera komið fyrir botni Miðjarðarhafsins eins og raun ber vitni. Það er skelfilegt að þessi hryðjuverkaárás skyldi verða gerð á Ísraelsmenn og ungt fólk í Ísrael og við hljótum að fordæma allar hryðjuverkaárásir. Hins vegar hljótum við jafnframt að harma beitingu valds vegna þess að ég hef enga trú á að þetta mál verði leyst með valdi.

Ég get tekið undir með hv. þm. að ég tel það ekki rétt að líta með sama hætti á þetta mál, þó að það sé afskaplega slæmt, og hryðjuverkaárásina í New York og Washington. Þarna hafa verið deilur mjög lengi, gagnkvæmar árásir og dráp á saklausu fólki. Það hafa um þúsund manns fallið í valinn núna á 14 mánuðum. Við í utanrrn. fylgjumst mjög vel með því sem þarna er að gerast og erum í sambandi við sérstaklega hin Norðurlöndin sem hafa miklu betri aðstæður en við til að dæma um það sem þarna er að gerast. Við munum halda áfram að fylgjast með því. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum af því ástandi sem þarna hefur skapast og má segja að friðarferlinu eins og það var hugsað er nánast lokið eins og útlitið er. En við hljótum að leggja á það áherslu, alþjóðasamfélagið, að koma því í gang á nýjan leik því að ekkert annað getur leyst þá alvarlegu deilu sem þarna er.