Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:43:18 (2369)

2001-12-04 13:43:18# 127. lþ. 42.91 fundur 192#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Það er ákaflega mikilvægt að hann, sá sem flytur stefnu íslenska lýðveldisins á alþjóðavettvangi, gefi þessa yfirlýsingu. Sharon forsætisráðherra hafði lýst því yfir að hin skelfilega og grimmúðlega árás Ísraelsmanna á Palestínumenn, þar sem þeir réðust í morgun beinlínis yfir landamærin með herlið, skriðdreka og þotur og eru núna sem við tölum að tæta upp flugvelli á Gaza-svæðinu, væri hluti af herför alþjóðasamfélagsins gagnvart hermdarverkum. Við á hinu háa Alþingi höfum flest lýst yfir stuðningi við viðbrögð hæstv. utanrrh. í þeirri herför. Þess vegna verður það að vera alveg ljóst að íslenska þingið, íslenska ríkisstjórnin og íslenskir stjórnmálaflokkar standa ekki með Ísraelsmönnum í þessu óréttlætanlega og óverjanlega árásarstríði sem þeir hafa nú hafið gagnvart Palestínumönnum.

Einnig er nauðsynlegt, herra forseti, að menn skilji hver undirrót þessa ófriðar er. Hún er sú að Ísraelsmenn hafa ekki viljað standa við samkomulagið sem gert var 1993. Það var þó einungis málamiðlun sem Palestínumenn varla gátu sætt sig við en gerðu þó í nafni friðar. Ísraelsmenn hafa svikið það samkomulag, þeir bera alla sök. Þeir hafa ekki staðið við það að Palestínumenn fái að stjórna þessum svæðum sem þeir þó fengu. Þeir hafa haldið fyrir þeim öllum skattpeningunum, þeir koma í veg fyrir að hægt sé að halda uppi heilsugæslu og innviðum venjulegs samfélags. Herra forseti. Það er þetta sem er undirrót meinsemdarinnar. Það skiptir miklu máli að við Íslendingar látum rödd okkar heyrast á alþjóðavettvangi og ég skora á hæstv. utanrrh. að beita sér fyrir því að Norðurlöndin myndi kjarna innan hins alþjóðlega samfélags sem beiti sér fyrir því að Ísraelsmenn verði knúnir til að standa við samkomulagið frá 1993.