Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:26:33 (2433)

2001-12-04 17:26:33# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er einfaldlega þannig að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eru greinilega á móti öllum málum sem hér koma inn. Við hlustuðum á það í umræðu um stefnuyfirlýsingu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um ljósastaura, himintungl og náttmyrkur, að þeir eru meira að segja á móti lýsingu á framhlið Alþingishússins, hún sé allt of mikil og þeir vilji minnka þá lýsingu. Ég hef ekki hugleitt þetta, ég ætla að gera það þegar ég labba út á eftir. En grundvallaratriðið er þetta og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson svaraði ekki þeirri spurningu áðan um jafnræðisrétt viðkomandi íbúa sveitarfélaganna í Skagafirði þar sem ég spurði bara skýrt og skorinort: Er það ekki réttur þeirra að allir sitji við sama borð hvað varðar þjónustu? Í þessu tilviki fær hluti þeirra þjónustu frá Rafveitu Sauðárkróks. Ef farið er örlítið út í sveitina þar sem engir ljósastaurar eru og himintunglin fá að njóta sín, þá er komið á svæði Rariks, þá er það Rarik sem þjónar þeim og það er ekkert víst að þeir fái sömu þjónustu. Er ekki verið að brjóta þarna jafnræðisrétt á því fólki? Þó að ekki væri nema bara þetta atriði hjá sveitarstjórn Skagafjarðar að vilja selja rafveituna til að allir íbúar Skagafjarðar sitji við sömu þjónustu og fái þjónustu frá sama aðila. Ég er ekkert endilega viss um að menn séu að gera þetta nauðugir viljugir. Ég er ekki sammála því áliti, herra forseti, sem fram kom hjá hv. þm. að sveitarfélagið Skagafjörður hafi enga samningsstöðu til að selja eignir sínar. Ég held að þeir hafi hana.

Ég held líka að sveitarfélögin á Vestfjörðum hafi haft samningsaðstöðu til að selja Orkubú Vestfjarða. Ég vil bara segja að núna þegar verið er að setja fleiri verkefni á sveitarfélög, þá er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk sveitarfélaga að reka raforkufyrirtæki.