Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 22:02:12 (2474)

2001-12-04 22:02:12# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[22:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr: Hefði þingmanninum og öðrum þingmönnum sem hafa tjáð sig um þetta liðið eitthvað betur ef ekki hefði verið gefin sú skýring varðandi framlag til Garðyrkjuskólans að þetta væri tengt sölunni á þessari tilteknu jörð? Það hefði þá ekkert annað breyst og þá hefði þessi fjárhæð til Skógræktar ríkisins, 40 millj., staðið óbreytt. Hin fjárveitingin, 10 millj., hefði líka staðið óbreytt án skýringa. Þetta er málið.

Eins er með ráðstöfunina á andvirði hlutabréfanna í Stofnfiski. Það er bara verið að veita upplýsingar og upplýsa af hverju einmitt núna er tækifæri til að taka á þeim vanda sem í mörgum tilfellum er margra ára gamall. Það er vegna þess að áskotnast hafa aurar, ef svo mætti segja, á verksviði landbrn., annars vegar þessi jörð og hins vegar hlutabréfin sem við urðum sammála um, við landbrh. og eftir atvikum ríkisstjórnin sem gerir þetta að tillögu sinni, að nota tækifærið og leysa þann vanda með þeim hætti. Það er nú bara svona sem þetta er.

Ég hygg nú að Skógrækt ríkisins sem hefur haft langan hala á eftir sér, sem er margra ára gamall, muni una mjög vel við þetta og ekkert sjá ofsjónum yfir því þó þetta mál sé tengt Garðyrkjuskólanum á einhvern hátt, og þeim hefði líka verið alveg sama þótt þeirri skýringu hefði verið sleppt, geri ég ráð fyrir. Ég held að þeir fagni því að þessi jörð skuli seljast svona dýru verði, miklu hærra verði en nokkur maður átti von á, og þeir skuli geta gert sér mat úr því fyrir okkar milligöngu með þessu móti.

Þetta er ekkert mál og það er ekkert verið að hafa neitt fé af neinum. Og þetta er enn síður eitthvert stórmál sem ætti að kalla hér á langa umræðu á hinu háa Alþingi. Þetta eru tekjur í ríkissjóð og þetta eru fjárveitingar úr ríkissjóði. Þannig er formið á þessu.