Greiðslumark í sauðfjárbúskap

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:07:48 (2533)

2001-12-05 15:07:48# 127. lþ. 44.3 fundur 260. mál: #A greiðslumark í sauðfjárbúskap# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Eins og fram kom í umræðu um fyrri fyrirspurn mína eru sauðfjárbændum ekki gerð sömu kjör og öðrum stéttum til hagræðingar vegna ákvæðanna um frjálst framsal greiðslumarks í sauðfjárbúskap. Því er mjög mikilvægt að koma því við sem fyrst. Samtök þeirra og ríkisvaldið hafa komist að þeirri niðurstöðu að til þess þyrfti ákveðinn tíma, ráðrúm til annarra aðgerða áður en þeir fengju sjálfir vald til að ákveða framtíð sína, m.a. þá framtíð að færa bú sín milli búgreina, breyta stærð þeirra og sameina smábú. Þetta allt þykir sjálfsagt í öðrum rekstri, sjálfsagt.

Það skiptir miklu máli, og verður enn ítrekað af því sem rætt var áðan og þá kom fram í svörum hæstv. landbrh., að við virðum fyrir okkur hvenær að því geti komið. Í því efni hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. á þskj. 305 um greiðslumark í sauðfjárbúskap og eru spurningarnar svohljóðandi:

1. Hve mikil hafa uppkaup ríkissjóðs á greiðslumarki samkvæmt ákvæðum búvörusamnings orðið og hver var viðmiðun búvörusamningsins?

2. Hvenær og hvernig koma til framkvæmda ákvæði búvörusamnings um frjálst framsal greiðslumarks?