Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 15:30:54 (2592)

2001-12-06 15:30:54# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Ég vek aftur athygli á því að þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var eignarskatturinn ekki lækkaður á móti. En miðað við þau prinsipp sem hv. þm. talaði um áðan þá hefði á sínum tíma átt að lækka eignarskattinn á móti fjármagnstekjuskattinum. Nú er verið að lækka eignarskattinn og ég tel það hið besta mál.

Við skulum bara skoða eitt. Hver er hin raunverulega skattlagning á hagnað eða arð af eigin fé í atvinnurekstri? Með 1,45% eignarskatti eins og verið hefur þá gefur 10% arður af eigin fé í atvinnurekstri 14,5% tekjuskatt sem ígildi eignarskattsins. Ef maður leggur saman 30% tekjuskatt, 14,5% eignarskattsprósentuna ofan á það og þar ofan á prósentuna af arðinum, þá er hin raunverulega skattlagning á arð af atvinnustarfsemi komin yfir 50%. Þetta er sem betur fer að lækka núna, niður í einhverja eðlilega prósentu. Þessi raunskattlagning á atvinnurekstur sem hér hefur verið er mjög há í öllum alþjóðlegum samanburði. En með þessari lækkun sem núna verður á fyrirtækjasköttunum, bæði eignarsköttunum og á tekjuskatti fyrirtækjanna, erum við að komast í flokk siðaðra þjóða hvað þetta snertir.