Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:26:37 (2608)

2001-12-06 18:26:37# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Kristjáns Möller kom mér mjög á óvart. Ég taldi að hann mundi nota tíma sinn til að skýra út það sem er á bls. 8 í nál. um að nota eigi auðlindaskatt til að fjármagna tekjuskattslækkun. Hver milljarður í auðlindaskatti, sem notaður er til að fjármagna tekjuskattslækkun, þýðir 500 millj. tilflutning frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Ég hélt að hann ætlaði að skýra út hvað hann ætlaði að taka mikið frá Siglufirði til þess að fjármagna tekjuskattslækkun í Reykjavík, frá Sauðárkróki, Hofsósi eða frá Skagaströnd. Nei, í stað þess biður hann mig að koma hér og útskýra fyrir sér af hverju þetta frv. sé gott fyrir landsbyggðina, m.a. vegna þess að eignarskatturinn er að lækka.

Hv. þm. ætti að kynna sér það hvernig hinn íþyngjandi eignarskattur sligar fyrirtæki sem ekki skila góðum hagnaði, eins og hefur því miður verið raun úti á landi. Þar sem arðsemi af eigin fé er 5%, þá þýðir 1,45% eignarskattur 29% tekjuskatt.