Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 21:00:32 (2629)

2001-12-06 21:00:32# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[21:00]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil mætavel að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, 1. þm. Norðurl. v., vilji ekkert ræða þær hugmyndir sem hér liggja fyrir, hann vilji fara með umræðuna í allt aðra hluti.

Ég vil segja það líka að umræðan um auðlindagjöld er orðin margra ára gömul. Sú umræða hefur ráðið hér ríkjum í samfélagsumræðunni undanfarin ár. Mér þykir dálítið sérstakt ef hv. þm. telur að hægt sé að klára þá umræðu í stuttu andsvari. Það finnst mér vægast sagt dálítið sérstakt.

Við skulum einmitt halda þessari umræðu áfram. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að núverandi fyrirkomulag við stjórn fiskveiða hefur gert það að verkum að landsbyggðin hefur sjaldan eða aldrei átt eins mikið undir högg að sækja. Ekki hefur nema að litlu leyti verið lagt á auðlindagjald þannig að auðlindagjaldið verður ekki sakað um að hafa vegið að landsbyggðinni.

Því er dálítið sérstakt ef hv. þm. ætlast til þess að þessar tillögur verði skýrðar út í stuttu andsvari. Þó má færa góð og gild rök fyrir því að ég skil óskaplega vel að hann vilji reyna að beina umræðunni frá sínu eigin frv. að einhverjum öðrum hugmyndum.