Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 21:35:15 (2633)

2001-12-06 21:35:15# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[21:35]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. svaraði nokkrum spurningum sem ég bar upp í þessum ræðustóli og hann talaði um að þær aðgerðir sem gerðar hefðu verið í sambandi við fjármagnstekjuskattinn sem hefði verið lækkaður, þó hann hefði hækkað í sumum tilvikum, og fleiri atriði hefðu orðið til þess að örva atvinnulífið eða hefði virkað sem vítamínsprauta á það. En það hefur greinilega ekki verið nægilega mikið fyrst hæstv. ríkisstjórn telur að það sem bjargi atvinnulífinu á Íslandi sé bara að lækka skatta á fyrirtækin. Ég held að hugsa þurfi alvarlega um vaxtagreiðslurnar en því miður eru tökin greinilega engin hjá ríkisstjórninni hvað varðar þá gífurlega miklu, ég leyfi mér að segja okurvexti sem eru við lýði í landinu.

Ég tel að það sé svo sem ekki neitt til að hreykja sér af með þennan fjármagnstekjuskatt í sumum tilvikum a.m.k., þar sem börn eru skattlögð alveg niður í ómálga börn sem eiga kannski örfáar krónur í bankabókum og við höfum komið með tillögur í þeim efnum og svo væri gaman að vita hvort fjmrh. telji að fjörleg viðskipti verði með hlutabréfakaup í kringum jólin eins og var fyrst þegar skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa var gefinn á sínum tíma.