Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 21:37:17 (2634)

2001-12-06 21:37:17# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[21:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég get auðvitað ekki svarað síðustu spurningu þingmannsins, en ég vona að svo verði. Ég vona að blómleg viðskipti verði með hlutabréf fyrir þessi áramót eins og oft hefur verið.

En það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það sem hérna er verið að gera er grundvallarkerfisbreyting á skattkerfinu til lengri tíma. Þetta er ekki skammtímaörvunaraðgerð eins og til að mynda er verið að gera í Danmörku núna. Slíkar breytingar geta átt rétt á sér. Þær eru ekki það sem við þurfum mest á að halda núna þegar við erum að koma út úr þensluskeiði þar sem er viðskiptahalli og verðbólgan hefur látið á sér kræla þó að hún sé núna á niðurleið á nýjan leik, þá þurfum við ekki slíkar aðgerðir heldur þurfum við það sem hérna er verið að gera, þar sem verið er að skjóta nýjum stoðum undir atvinnulífið með þessari varanlegu kerfisbreytingu sem er náttúrlega grundvallarstrúktúrbreyting eins og sumir mundu kalla það í skattkerfinu.