Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:37:43 (2666)

2001-12-07 13:37:43# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það hvarflar ekki að mér að sletta skyrinu.

Ég vil þakka hv. þm. fyrir ræðuna sem var um margt ágætishugleiðing. Hún talaði að vísu um skammtímalausnir og nýju fötin keisarans. Það er kannski þess vegna sem mig langar til að spyrja einkum um tvennt sem fram kom í ræðu hennar.

Hv. þm. talaði um hert skatteftirlit. Talaði um að Samfylkingin vildi verja 100 millj. í viðbótarfjárheimild til herts skatteftirlits, sem ætti síðan að skila 810 millj. Mig langar að vita hvað býr þarna að baki. Hv. þm. talaði líka um bókhaldsfiff. Ég er alveg viss um að hér er ekki um neitt bókhaldsfiff að ræða en fróðlegt væri að fá að heyra útskýringar á þessu.

Hv. þm. talaði einnig um breytt umhverfi innan lands og utan, sem er svo vissulega rétt. Hv. þm. talaði um að lækka ferðakostnað Alþingis og undir það get ég í sjálfu sér tekið. En mig langar til þess að vita hvað býr að baki? Eigum við að fækka t.d. þeim sem fara á Evrópuþing eða Norðurlandsráðsþing o.s.frv.? Við höfum auðvitað okkar skyldum að gegna í alþjóðlegu samstarfi en fróðlegt væri að vita hvað býr þarna að baki.

Það var líka talað um sérfræðikostnaðinn. Um hvað er verið að tala? Er t.d. verið að tala um það þegar við þingmenn leggjum fram fyrirspurnir hér? Þá þarf oft að kalla til sérfræðinga og það kostar mikla peninga. Stendur til að setja einhverjar hömlur á það t.d. vegna þess að þar eru um verulegan kostnað að ræða? Ég er alveg viss um að hv. þm. hefur svör við þessu og hér er vonandi ekki um einhverjar skammtímalausnir að ræða hjá Samfylkingunni.