Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 14:37:48 (2677)

2001-12-07 14:37:48# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Nú við 3. umr. um fjárlög setja að sjálfsögðu svip sinn á umræðuna þær tillögur sem hér liggja fyrir í bandormsformi og eiga formlega að koma til umræðu á morgun svo og sú niðurstaða að lækka nokkuð þau útgjaldaáform sem gerð var grein fyrir þegar fjárlagafrv. kom hér fyrst til umræðu.

Það sem ég vil fyrst og fremst segja um þetta er að þessi niðurskurður er ákaflega lítill. Menn verða að átta sig á því hvernig hann er til kominn. Menn ákváðu að bregðast strax við nú í haust þegar ljóst var að tekjurnar mundu kannski ekki verða nákvæmlega eins og við ætluðum í upphafi, að útlitið væri verra en menn hefðu gert ráð fyrir í upphafi.

Það er alveg rétt sem margir hafa sagt um þessar tillögur að mun æskilegra hefði verið að þær hefðu að mestum hluta eða öllum fjallað um niðurskurð á rekstri. Ég er alveg sammála á því. En niðurskurður á rekstri ríkisins er hlutur sem þarf mikinn undirbúning. Sex til tólf mánuðir mundi ég ætla að væri réttur aðdragandi að því, ef sá niðurskurður á að vera raunhæfur og ekki bara sýndarmennska. Þær tillögur sem hér liggja fyrir bera því vitni að vera aðgerðir sem gripið er til með skömmum fyrirvara. Þær hefðu miklu frekar átt að vera um reksturinn. Vonandi verður svo að menn horfist í augu við að lækka verður rekstrarkostnað ríkisins. Hann hefur vaxið gríðarlega mikið og það er ekki ástæða til að halda því áfram.

Ég hef áður gert það að umræðuefni hvernig launakostnaður ríkisstarfsmanna hefur vaxið. Við það hefur hvað eftir orðið uppi fótur og fit, menn hafa staðið hér upp og mótmælt því. Það er sjálfsagt að menn mótmæli en þá ég bið þá sem mótmæla því að koma mótmælum sínum á framfæri við þær stofnanir sem annast það að gera hér tölfræðirannsóknir, til Seðlabankans, Þjóðhagsstofnunar, Hagstofunnar eða kjararannsóknarnefndar, en vera ekki að mótmæla mér vegna þess að niðurstöðum allra þessara stofnana ber saman.

Laun ríkisstarfsmanna miðað við 100 stig árið 1990 eru í dag á þriðja ársfjórðungi þessa árs 209,6 stig á móti 173,2 á hinum almenna markaði. Ég ætla að ítreka það enn einu sinni, herra forseti, að þetta má ekki halda svona áfram. Þetta má ekki undir neinum kringumstæðum halda svona áfram. Með allri virðingu fyrir því góða fólki sem vinnur hjá ríkinu, með allri virðingu fyrir því duglega, vel menntaða og metnaðarfulla fólki sem vinnur hjá ríkinu og leggur sig eflaust allt fram í sínu starfi, þá verða menn og mega vita það að ríkisstarfsmenn geta aldrei vænst annarrar launaþróunar og annarrar kjaraþróunar en það fólk sem vinnur við framleiðsluna í landinu. Þetta má bara ekki halda svona áfram, það má bara ekki. Ég minni menn á að á þessu er aldrei neinn endir. Við erum aldrei búin að semja við þessa hópa.

Ef menn vilja leggja eyrun við, þá má svo sem heyra hófadyninn. Það eru riddarasveitir læknafélaganna sem núna eru að nálgast. Er einhver undankoma? Nei, það er engin undankoma. Menn komast ekki hjá því að láta sverfa til stáls og það verður þá einu að gilda hvar það endar. Við megum ekki halda þessari þróun áfram, ríkinu og sveitarfélögunum leyfist það ekki. Menn verða að gera sér grein fyrir að þessi þróun á Íslandi á undanförnum árum er háskaleg. Hlutfall launa í þáttatekjum þjóðfélagsins er núna 65% og hefur stöðugt farið hækkandi á undanförnum árum. Ef við lítum á hagsöguna, förum svona 30 ár aftur í tímann, þá er eitt dæmi þess að hlutfall launa hafi verið svo hátt. Það var árið 1988. Þá fór hlutfallið upp í 66,4% og ég vona, herra forseti, að allir muni hvernig fór þá. Það fór illa þá. (Gripið fram í: Hver ber ábyrgðina?)

Þeir sem bera ábyrgðina eru þeir sem semja á launamarkaði. Auðvitað er ábyrgðin sveitarfélaganna og ríkisins, auðvitað er hún þeirra. Þeim leyfist ekki að gera kjarasamninga sem eru umfram það sem atvinnuvegirnir geta borgað fólkinu í landinu. Við verðum því að horfast í augu við að núna gildir það eitt að stöðva þann vöxt í rekstrarkostnaði ríkisins sem verið hefur um árabil. Það verður að gerast sama hvað það kostar.

Samneyslan í landinu hefur farið vaxandi, sérstaklega hin síðari ár og hún er að nálgast rétt u.þ.b. 24% af vergri landsframleiðslu. Þetta hlutfall hefur yfirleitt legið í 21% og á að vera þar. Ef það hækkar svona gríðarlega verða menn að horfast í augu við það að eitthvað lætur undan, annaðhvort fjárfestingin eða þá kaupmátturinn í landinu. Það er ekkert annað sem getur látið undan. Það eru ekki nein önnur skipti, það er þá einkaneyslan. Þetta er því svona.

[14:45]

Við erum að afgreiða fjárlög og hið sama gildir um ríkisútgjöldin, hlutfall launa í ríkisútgjöldum hefur farið vaxandi. Við verðum að stöðva þá þróun hvað sem tautar og raular. Þó svo gæfulega hafi viljað til á undanförnum árum að ríkið hafi ekki aukið skuldir sínar erlendis, það hefur verið okkar aðalgæfa, þá verðum við að horfast í augu við að þessi þjóð er gríðarlega skuldug. Hún skuldar 600 milljarða, þessi litla þjóð með aðeins 280 þús. íbúa. Þó að ríkið hafi til allrar hamingju ekki verið að auka skuldir sínar skulum við minnast þess hvað er að veði fyrir þessum skuldum. Það eru jú bankarnir, lífæðar þjóðfélagsins og framleiðslutækin.

Það er eins gott að menn geri sér grein fyrir því hver staðan er og eins gott að ekkert komi fyrir. Það er engin ástæða til annars en að horfast í augu við að okkur hefur gengið vel, okkur hefur farnast vel. Lífskjör í landinu eru góð og mikil atvinna en við verðum að fara varlega. Við höfum dæmin um að okkur hafi mistekist vegna þess að við höfum verið kærulaus.

Herra forseti. Nokkur orð um störf fjárln. Það hefur valdið mér vonbrigðum að jafnvel þingvanir menn virðist jafnvel ekki gera sér grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin vinnur með þingmeirihluta sínum. Að sjálfsögðu vinnur meiri hluti fjárln. með sinni ríkisstjórn. Að sjálfsögðu er sá siður, sem hefur verið hér að ég ætla alla tíð, að ríkisstjórnin, sem er flutningsmaður fyrir stjfrv. --- fjárlagafrv. er stjfrv. --- hafi áhrif á það og hafi meiningar um hvernig það eigi að líta út og kemur því með margar breytingartillögur meðan frv. er til umfjöllunar. Ríkisstjórnin snýr sér til þingnefndarinnar og biður hana að flytja brtt. sína. Ég hélt að öllum væri þetta ljóst en það virðist ekki vera og því er rétt að fara yfir þetta. Þetta eru sameiginlegar brtt., sameiginlegar tillögur meiri hluta fjárln. og ríkisstjórnarinnar. Það er mjög nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því.

Hins vegar er öllum frjálst, herra forseti, eins og menn vita að flytja sínar tillögur. Öllum er frjálst að gera það. Þeir sem telja sig ekki þurfa á fulltingi ríkisstjórnarinnar eða meiri hluta fjárln. að halda geta náttúrlega flutt tillögur sínar sjálfir, t.d. forseti Alþingis. Það er ekkert að því að hann flytji tillögur sínar sjálfur. Ekki hefði ég á móti því, herra forseti, að sú skipan kæmi að þeir flyttu bara sínar tillögur. Þá gætu hv. þm. greitt atkvæði um þær ef þeir vildu, hvernig sem þeir vildu. Ég á ekki von á að það verði breyting í þá átt en ég nefni þetta.

Til viðbótar við störf nefndarinnar er rétt að ítreka og fara yfir að að sjálfsögðu veitir þingið áheyrn, tekur á móti erindum frá gríðarlegum fjölda félagasamtaka og einstaklinga. Flestir ef ekki allir eru þeir að vinna sjálfboðaliðastarf fyrir þetta þjóðfélag til gagns og blessunar. Í mínum huga er klárt að stór hluti af farsæld Íslands er hversu yfirgripsmikið sjálfboðaliðastarf á sér stað hér. Þingið hefur alla tíð séð sóma sinn í að reyna, þó ekki væri nema á táknrænan hátt, að styðja þessi samtök, alls konar samtök sem vinna að félagsmálum, líknar- og heilbrigðismálum og talið af því sóma. (Gripið fram í: Og kirkjuna. ) Já, kirkjuna ekki síst. Ég vil hafa orð á þessu vegna þess að sumum hafa þótt þunnar tillögurnar sem hafa komið hér fram.

Við höfum oft styrkt hið mikla og góða starf björgunarsveitanna, hið ómetanlega starf sem þær sinna. Við höfum líka tekið þátt í því að reyna að styrkja með öllum ráðum baráttuna gegn eiturlyfjum. Í okkar huga er það grafalvarlegt mál þegar við styrkjum björgunarsveitirnar t.d. til þess að geta átt leitarhunda eða að styrkja hundahald í þeim tilgangi að berjst gegn eiturlyfjunum. Okkur finnst það grafalvarlegt mál og eðlilegt að styrkja það, og ekkert fyndið við það á nokkurn hátt, alls ekki.

Ég tel líka rétt að hafa orð á því hér að það er eitt stílbrot í þessum tillögum okkar frá því sem hefur verið undanfarin ár, en fjárln. hefur á undanförnum árum að eigin frumkvæði lagt til nokkra peninga til að auka skógrækt á Íslandi. Í því sambandi hefur tekist að koma nokkru fé í skógræktarverkefni hingað og þangað um landið. Gert hefur verið átak í skógrækt um allt land og er ekki vafi, herra forseti, að þetta hefur verið giftusamlegt og til gæfu.

Hins vegar er það svo að fjárln. getur ekki ár eftir ár staðið fyrir hækkunum á þessum liðum. Það verður að líta svo á að þær fjárhæðir sem núna eru veittar til landshlutabundinna skógræktarverkefna verði óbreyttar nema til komi stuðningur frá landbrn.

Einnig er ástæða til þess að nefna, af því að það hefur komið til nokkurrar umræðu varðandi þann bandorm sem hér kemur til formlegrar umræðu á morgun, að Ísland ver gríðarlega háum fjárhæðum --- alveg sama hvernig það er mælt og yfirleitt er samanburðurinn á milli landa gerður sem hlutfall af vergri landsframleiðslu --- hærri hlutfallstölu en flest önnur Evrópuríki til heilbrigðismála. Erum við þó mjög ung þjóð í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir. Við erum hærri en nærri því allar Evrópuþjóðir, í alhæsta kanti. Hins vegar, ef við berum saman þennan kostnað við Evrópuþjóðirnar og allar OECD-þjóðirnar, þá er það gegnumgangandi að í öllum ríkjum Evrópu er kostnaður þeirra sem njóta þjónustu heilbrigðismála nokkurn veginn sá sami í öllum ríkjum Evrópu eða um 2% af vergri landsframleiðslu, en miklu hærra í Bandaríkjunum. Það er miklu réttara að miða við Evrópu. Ísland sker sig úr öllum öðrum Evrópuríkjum. Á Íslandi er hlutdeild sjúklinga 1% af vergri landsframleiðslu. Einstaklingarnir borga hér hlutfallslega helmingi minna í heilbrigðiskostnaðinn en sjúklingar í öðrum Evrópuríkjum. Það er rétt, herra forseti, að minna á þetta og fara yfir þannig að mönnum sé þetta kunnugt.

Við 2. umr. gerðu menn nokkrar athugasemdir við að eitthvað skorti á fagleg vinnubrögð þar sem við værum að gera tillögur um að veita smápeninga til nokkurra menningartengdra ferðaþjónustuverkefna vítt um Ísland eins og við höfum gert á undanförnum árum. Ég fullyrði, herra forseti, að öll þessi verkefni eru mjög faglega unnin, öll gögn um þau liggja fyrir og bestu menn á hverju sviði, mestu fagmenn og bestu menn Íslands koma að því eins og sjá má ef við skoðum þessi gögn. Þannig að engin hætta er á skorti á fagmennsku. En þessi sjónarmið koma stundum fram, í Reykjavík aðallega hjá sjálfskipuðum menningarvitum, að úti á landi séu ekki fagleg vinnubrögð, þar sé eitthvað annað. Það er rangt og rétt að undirstrika það.

Að lokum, herra forseti, er rétt að benda á að nokkrar umræður hafa orðið um tekjuhlið þessa frv. Menn hafa ekki verið á eitt sáttir um hana og bent á það að tekjuspárnar væru misvísandi. Það er ekki óeðlilegt þó að tekjuspárnar séu misvísandi á slíkum óróleika- og óvissutímum sem við lifum núna. Það er eðlilegt að þar sé misvísun. En hvernig svo sem veruleikinn verður á næsta ári og þar næsta, hvort hinar svartsýnu spár reynast réttar eða hinar bjartsýnu, hvort sem ástand og horfur fyrir þetta þjóðfélag eru sæmilegar, góðar eða slæmar, þá er alveg þarflaust að kýta um það hér. Það er alveg sama á hvorn veginn þetta fer á næstu missirum eða mánuðum, verkefnið verður alltaf hið sama. Verkefnið er óumflýjanlegt, þ.e. að við verðum að vinna að því og vanda í alla staði það verk að stöðva útþenslu ríkisins og koma í veg fyrir þá þróun sem verið hefur. Við þurfum að vinna að því á raunhæfan og heilbrigðan hátt eins og vel er hægt að gera, að kostnaðarhlutföll ríkisins lækki.