Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:20:59 (2714)

2001-12-07 16:20:59# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast vissulega við hækkanir á gjaldskrám á komum til sérfræðinga í sumar. Sérstaklega voru það röntgenrannsóknir sem hækkuðu en þá var breytt um kerfi. Þá fóru menn að greiða hlutfallslega í stað þess að greiða fasta upphæð. Ég kannast mætavel við það. En varðandi hækkanirnar í sumar var reynt að hafa til grundvallar að hækkanirnar yrðu sem minnstar að raungildi. Hins vegar héldum við komugjöldum í heilsugæsluna óbreyttum þegar gjaldskrám var breytt í sumar.

Varðandi það hve hátt hlutfall af þessum 310 millj. mundi væntanlega lenda inni í aukinni greiðsluþátttöku þá höfum við stefnt að því að hægt verði að ná 1/3 þessarar upphæðar með öðrum aðgerðum. Greiðsluþátttakan yrði í kringum 200 millj. af hækkuninni. Þetta eru þau markmið sem við höfum sett okkur og ég vil láta þau koma fram við þessa umræðu þannig að þau liggi fyrir. Þetta eru markmið okkar.

Ég endurtek að þessar ráðstafanir eru til að mæta í þröngri stöðu litlum hluta af þeirri aukningu á framlögum til heilbrigðiskerfisins í fjárlögum.