Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:51:47 (2721)

2001-12-07 16:51:47# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg með ólíkindum að heyra þau gullkorn eða hitt þó heldur sem hrjóta hér af vörum hv. þm. Kristjáns Pálssonar þegar maður leiðir hugann að því að hann hefur setið í hv. fjárln. og unnið, að því er maður heldur, þá vinnu sem liggur að baki þeim tillögum sem hv. alþm. hafa verið að fjalla hér um. Og ég spyr: Ætlar hv. þm. að neita því að tillögur ríkisstjórnarinnar við fjárlagafrv. og tillögur meiri hluta fjárln. feli í sér hækkaðar álögur á sjúklinga og skólafólk? Til þess að auðvelda hv. þm. svarið vil ég að hann víki í svari sínu sérstaklega að innritunargjöldum í opinbera háskóla, efniskaupa- og innritunargjaldi nemenda í framhaldsskólum og gjaldi fyrir ferliverk á sjúkrahúsum.