Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:55:00 (2724)

2001-12-07 16:55:00# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Með fullri virðingu fyrir því hvað hv. þm. telur boðlegt hef ég fram að þessu talið að tölur frá fjmrn. væru boðlegar hv. þm. Ég var einungis að lesa upp tölur sem koma frá ráðuneytismönnum. Ég geri ekki ráð fyrir því að þeir séu með rangar tölur. Ég kannast ekki við að þeir gefi rangar upplýsingar. Ef svo væri, verður það leiðrétt. En Háskóli Íslands fær samkvæmt þessum tölum, 25% aukningu á milli áranna eða 801,3 millj. Menntaskólinn í Reykjavík fær 72,8 millj. kr. viðbót eða 30%, Suðurnesin 65,6 millj. eða 29%, Vestmannaeyjar 34% og Suðurland 32%. Þetta er því alveg frá 25 og upp í 34% hækkun hjá þessum stærstu skólastofnunum. Hv. þm. segir að ég fari með staðlausa stafi og ég hafi ekki hugmynd um þetta. Mér finnst alveg makalaust að hlusta á þetta. Ég er ekki að búa þessar tölur til. Þær koma frá ráðuneytinu.