Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 17:03:15 (2731)

2001-12-07 17:03:15# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki unnið að þessu í Byggðastofnun heldur er sérstakur starfshópur á vegum iðnrh. að vinna að þessari nýju byggðaáætlun. Hins vegar er það ámælisvert að teknar skuli út fjárveitingar sem voru inni í fjárlögum þessa árs vegna gömlu áætlunarinnar. Það kemur aftur á móti ekkert inn vegna hinnar nýju þannig að það boðar væntanlega að það verði ekki til neitt fjármagn til þess að vinna eftir nýrri áætlun á næsta ári.

Hitt sem ég ætlaði að minnast á við hv. þm. er skólakerfið, vegna þess að hann tók það sérstaklega fyrir og taldi þar vera allt með miklum sóma og í miklum blóma og fjárstreymið væri nær óstöðvandi í þann málaflokk. Þetta kemur okkur auðvitað verulega á óvart sem höfum setið fundi fjárln. vegna þess að --- ég hélt að hv. þm. hefði líka verið viðstaddur --- við fengum heimsóknir m.a. frá skólameisturum í framhaldsskólum þar sem þeir lýstu ástandinu hjá sér og hversu brýnt það væri að reiknilíkanið sem notast er við yrði endurskoðað. Það er m.a. búið að skila til nefndar sameiginlegu áliti af hálfu ráðuneytis og skólameistara þar sem niðurstaðan er mjög skýr, að það þurfi að taka á þessu máli. Það var rætt afskaplega jákvætt um það í nefndinni að gera slíkt en ekkert hefur gerst.