Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:26:39 (2759)

2001-12-07 20:26:39# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. efast um að þekking sé í ráðuneytunum til þess að standa í framkvæmdum eins og t.d. viðgerð á bát. Það er kannski ljóður að ráðuneytin fari ekki út á land og kanni hvað sé að á hverjum stað. Svo ætti auðvitað að vera. Framkvæmdarvaldið er ekki bara framkvæmdarvald í Reykjavík. Það er framkvæmdarvald fyrir allt landið. En það virðist oft gleymast. Auðvitað á framkvæmdarvaldið að halda fundi og taka á móti fólki á staðnum og heyra hver vandamálin eru á hverjum stað varðandi framkvæmdir, alls konar opinberar framkvæmdir.

Síðan um það hver semji lögin. Ég gat um það að sá sem semur lögin eða semur texta hann ræður mestu um endanlegt útlit hans. Það sem þingmenn eru að gera hérna, merkilegt nokk, er að kanna hvernig lögin muni koma út í framkvæmd. Hv. þm. sem eru á löggjafarsamkundunni eru að kanna hvernig gengi að framkvæma lögin í staðinn fyrir að framkvæmdarvaldið geri það. Miklu eðlilegra væri að þingmenn semdu lögin með sérfræðingum sínum, réðu til sérfræðinga, og síðan yrðu þau send til ráðuneyta og alls konar samtaka til að kanna hvernig gengur að framkvæma það sem þingmenn hafa sett saman. Þessu er snúið við, herra forseti. Þessu er snúið við í núverandi kerfi því að framkvæmdaraðilarnir semja lögin, en svo eru það þingmennirnir á löggjafarsamkundunni sem kanna hvernig gangi að framkvæma viðkomandi lög.

Ég vildi gjarnan að menn alla vega hugsuðu þá hugsun hvort ekki sé eitthvað smábrogað við þetta.