Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 22:48:28 (2771)

2001-12-07 22:48:28# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[22:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessi jákvæðu viðbrögð.

Varðandi samanburð á lyfjum þá er í flestum tilvikum um að ræða sömu lyf á þessum tíma. Í einhverjum tilvikum eru til komin ný lyf og í einu tilviki kom til dýrara lyf, þannig að það er alveg rétt. En á heildina litið þá er um nákvæmlega sambærileg lyf og sambærilega þjónustu að ræða. Eitt skal tekið fram og áréttað, að þegar heildarkostnaðurinn er reiknaður út þá er lagður þar til grundvallar lyfjakostnaðurinn í þeim apótekum þar sem lyfin eru ódýrust.

Það er rétt hjá hæstv. heilbrrh. að til sögunnar hafa komið ný tækni og ný úrræði og þróunin orðið sú að fólk fer fyrr út af sjúkrahúsum yfir á svokölluð sjúkrahótel. Ég held að það sé mjög mikilvægt að tryggja að þar sé ákveðin samfella og litið á þau sem hluta af heilbrigðisþjónustunni.

Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. heilbrrh. hvernig hann vill taka á eða öllu heldur bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á að taka 10 millj. út úr þessum geira, eins og lagt er til í fjárlagafrv. Ég hvet hæstv. heilbrrh. til að beita sér fyrir því að það verði endurskoðað.