Lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:37:40 (2898)

2001-12-11 13:37:40# 127. lþ. 48.95 fundur 221#B lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fresta þeirri umræðu af þessum sökum. Eins og fram hefur komið, m.a. hjá hv. þm., hefur ríkisstjórnin haft góðan vilja til þess að standa með öðrum að því að styrkja grundvöll kjarasamninganna sem í gildi eru og varðveita þann mikla kaupmátt sem náðst hefur á undanförnum árum.

Það hefur komið fram hjá ríkisstjórninni að ef verðlagsmarkmið kjarasamninga muni ganga eftir þá muni ríkisstjórnin beita sér fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,25%, úr 6% í 5,75%, á árinu 2003. Það er þá sem þessi lög eiga að taka gildi þannig að við höfum rúman tíma til að breyta því, gangi það allt eftir. Að öðru leyti munu ekki nein frv. koma til afgreiðslu af þessu tilefni fyrir jól. Á hinn bóginn er augljóst að frv. sem lúta að því sem hv. þm. nefndi og snúa að grænmetismálum munu koma fram með vorinu.

Eins og ég segi mun ríkisstjórnin standa við það sem hér er sagt um tryggingagjaldið að því gefnu að verðlagsmarkmið kjarasamninganna muni haldast og samningarnir haldist.