Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:55:29 (2905)

2001-12-11 13:55:29# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál var ekkert rætt sérstaklega milli 2. og 3. umr. vegna þess að málið var fullrætt í nefndinni fyrir 2. umr. Þetta snýst um að hv. þm. hefur þá skoðun að með því að lækka frekar tekjuskattinn á fyrirtækjunum þá mundi verð það sem hægt væri að fá fyrir ríkisfyrirtæki hækka svo mjög að það mundi greiða upp það tekjutap sem ríkissjóður yrði fyrir vegna þess að tekjuskatturinn lækkaði meira.

Eins og ég gat um í umræðunni fyrir 2. umr. er ekki hægt að fara með slíka þríliðureikninga hér fram. Þannig er að verð á fyrirtækjum, verðmat á fyrirtækjum byggir á alls kyns væntingum um framtíðina og þótt tekjuskattur yrði lækkaður núna á því herrans ári 2001 eða því herrans ári 2002 úr 18% niður í 10% þá er ekki þar með sagt að gjörvöll heimsbyggðin trúi því að sú prósenta mundi standa óbreytt um aldur og ævi. Alls konar hlutir koma inn í verðmat á fyrirtækjum og það er ekkert hægt að koma hér og halda að hægt sé að töfra eitthvað svona upp úr hattinum eins og einhverjar kanínur.