Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:49:19 (2929)

2001-12-11 15:49:19# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þau pólitísku tíðindi hafa orðið að hv. þm. hefur kallað tillögu sína aftur, þessa merku tillögu um 11% tekjuskattshlutfall fyrirtækja. Ég þakka fyrir að fram kom í svörum hv. þm. að rökin fyrir þessari hlutfallstölu væru pólitísk, að hv. þm. hefði talið þetta pólitískt framkvæmanlegt en rökin væru ekki fagleg eða tæknileg --- þetta ætti mögulega að sleppa gagnvart því að Ísland yrði ekki kært sem skattasmuga. Ég veit ekki hver er þá munurinn á 11% og 10%, hvort 10% á landsfundinum hafi þar með sagt verið óraunsæ. Það breytir hins vegar ekki öllu. Hv. þm. hefur sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að láta tillöguna ekki koma til atkvæða.

Ég vil leiðrétta það sem ég reyndi að gera í frammíkalli, að ég tók mér aldrei í munn orðið öfgamaður eða öfgasjónarmið í umræðum um málið. Það gerði hins vegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson í strákslegum frammíköllum utan úr sal. Ég talaði um endasjónarmið og að hv. þm. væri talsmaður mjög ákveðinna sjónarmiða í þessum efnum, í þessum skattalegu málum, sem ég er að vísu iðulega algerlega ósammála. Engu að síður er oft áhugavert að hafa þau sjónarmið uppi í umræðunni.

Ég dreg ekki í efa góðan vilja hv. þm. sem ég hef setið með lengi, áður í efh.- og viðskn. og nú í félmn., hvað það varðar að nýta vel og skynsamlega og í þágu góðra málefna þá fjármuni sem ríkið hefur með höndum. Okkur greinir ugglaust á um hversu mikið umfangið eigi að vera en ekki hitt, að þá ber að nota vel og skynsamlega í þágu almennings í landinu.

Að lokum vil ég taka fram að að sjálfsögðu er ég sammála hv. þm. um að eðlilegra er, að breyttu breytanda, að ræða skattafrumvörp sem tengjast næsta fjárlagaári á undan fjárlögunum og enda svo störfin fyrir jólaleyfi á því að afgreiða fjárlagafrv.