2001-12-11 16:31:10# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir skýrsluna. Mig langar aðeins til að spyrja hér um eitt lítið atriði. Á bls. 2 stendur, með leyfi forseta:

,,Atvinnulíf á landsbyggðinni þarf greiðan aðgang að lánsfé á sambærilegum kjörum og bjóðast á höfuðborgarsvæðinu og veita þarf fjárfestingarstyrki í samræmi við það sem tíðkast erlendis.``

Mig langaði aðeins að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhverjar hugmyndir séu í gangi um að breyta þessari skilgreiningu á höfuðborgarsvæðinu.

Fram að þessu hefur höfuðborgarsvæðið í mínum huga þýtt sveitarfélögin í kringum höfuðborgina, þ.e. Hafnarfjörður og Kópavogur í suðri og núna er það Kjalarnes í norðri og Mosfellsbær í austri. Aftur á móti hafa svæði eins og Suðurnesin, Árborgarsvæðið og Akranes verið fyrir utan þó að þau teljist næst.

Ég spyr vegna þess að í nýju byggðakorti ESA var ákveðinn hluti Suðurnesjanna felldur út af kortinu og það hefur ákveðnar afleiðingar. Því vildi ég heyra frá hæstv. ráðherra hvort einhverjar hugmyndir væru um frekari breytingar á þessari skilgreiningu um höfuðborgarsvæðið.