2001-12-11 18:19:37# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar kom fram að sjávarútvegur skiptir alveg gífurlega miklu máli á landsbyggðinni og um það erum við hjartanlega sammála. Hann skiptir gífurlega miklu máli. Það sem kom mér á óvart var afstaða hans til annarra atvinnugreina og þess sem ríkisvaldið er að vinna að til að byggja upp aðrar atvinnugreinar á landsbyggðinni.

Í máli manna hefur komið fram að einhæfni atvinnulífsins er hvað mesti hvatinn að flutningum fólks af landsbyggðinni og það þýðir auðvitað að við verðum að vinna að meiri fjölbreytni. Það hefur svo sannarlega verið gert og kemur margt þar inn í sem menn hafa verið að vinna að, bæði ríkisvaldið, einstök ráðuneyti, Byggðastofnun með stefnu sinni og lánastarfsemi og svo vil ég einnig draga fram þátt atvinnuþróunarfélaganna.

Ég tel að eitt af því merkilegra sem hefur verið að gerast á undanförnum árum í byggðamálum sé uppbygging atvinnuþróunarfélaganna og ég er alveg viss um að hv. þm. þekkir frá Vestfjörðum að þau skipta gífurlega miklu máli í uppbyggingu atvinnulífs. Þar hefur safnast saman mikill þekkingarbrunnur sem er atvinnulífi á landsbyggðinni til stuðnings. Þar vinnur reyndar her sérfræðinga með háskólamenntun sem skiptir máli fyrir alla þá atvinnustarfsemi sem á sér stað og hefur sýnt sig að vera mikið afl í því að vinna að nýjum atvinnutækifærum á landsbyggðinni.