Rafræn eignarskráning verðbréfa

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:24:30 (2994)

2001-12-11 19:24:30# 127. lþ. 49.3 fundur 132. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# (skráning bréfa erlendis) frv. 147/2001, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:24]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið umsagnir um það. Hún gerir tillögu til breytinga á málinu í þremur liðum. Í fyrsta lagi er sett inn ákvæði samkvæmt tillögu nefndarinnar um það hvað gerast skuli þegar starfsleyfi aðila sem hafi gert aðildarsamning um eignarskráningu er afturkallað eða bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann óskar eftir heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings. Þá er miðað við að aðildarsamningur falli úr gildi og að verðbréfamiðstöð annist eignarskráningu frá þeim tíma sem samningur fellur úr gildi nema um annað hafi verið sérstaklega samið. Síðan þarf að flytja eignarréttindin í umsjón annarrar reiknistofnunar sem gert hefur aðildarsamning við verðbréfamiðstöðina.

Í 2. lið brtt. er fjallað um að hægt sé að skrá rafbréf í fleiri en einni verðbréfamiðstöð enda á að vera tryggt að aðeins sé hægt að skrá réttindi yfir hverju einstöku rafbréfi í einni verðbréfamiðstöð.

Síðan er í 3. lið ákvæði um svokallaða samráðsnefnd þar sem gert er ráð fyrir að séu þrír fulltrúar, einn tilnefndur af Seðlabanka Íslands, einn tilnefndur af verðbréfamiðstöðvum og einn tilnefndur af kauphöllum.

Virðulegi forseti. Með þessum brtt. leggur efh.- og viðskn. til að frv. verði samþykkt.