Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:52:16 (3002)

2001-12-11 19:52:16# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:52]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vildi bara nefna hér nokkur atriði sem fram hafa komið í máli manna út af þessu frv. til frekari skýringar. Ég fagna því að það er góð samstaða um málið í hv. efh.- og viðskn. og milli stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi.

Það er rétt að þetta mál er að hluta til EES-mál, þ.e. tengist niðurfellingu tolla á tóbaki frá EES-löndunum sem við erum skuldbundin til um næstu áramót. Til að koma í veg fyrir mismunun gagnvart öðrum löndum var ákveðið að fella þá alveg niður og taka þess í stað upp annað form gjaldtöku, hið svokallaða tóbaksgjald.

Þessu tengist hins vegar líka gamalt vandamál í innheimtu tekna af tóbaki á Íslandi, sem er að fyrir utan tolla hefur tekjuöflun ríkisins af þessum varningi byggst á svokallaðri magnálagningu. Slík gjaldtaka stenst ekki lengur þær kröfur sem menn vitnuðu til áðan í öðru máli og tengdu stjórnarskránni, þ.e. ákvæðum um að Alþingi skuli leggja á og taka af skatta.

Til þessa hefur það ekki verið gert að því er varðar skatt á tóbak. Hann hefur bara verið ákveðinn, mér liggur við að segja, í samtölum milli ráðuneytisins og Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá degi til dags þó að þar á séu kannski ekki mjög tíðar breytingar núorðið. En þetta er ekki eðlilegt og þess vegna er verið að nota tækifærið samhliða tollabreytingunni og koma þessu í alvörubúning, ef svo mætti segja, en jafnframt að tryggja að þessu gjaldi verði ekki breytt framvegis nema Alþingi komi þar að máli. Þessu gjaldi verður ekki breytt framvegis nema með ákvörðun Alþingis, hvorki til hækkunar né lækkunar. Þar með er fyrirkomulagið svipað og er varðandi áfengisgjaldið, sem er reyndar í sömu lögum.

Hv. þm. Þuríður Backman lét þess getið að e.t.v. yrði auðveldara að stýra verðlagningu á tóbaki eftir að þessi breyting er gerð. Það má vel vera. Þá verða menn kannski að vera samstiga og hafa hraðar hendur í Alþingi til þess að hafa ekki áhrif á það sem gerist á markaðnum hverju sinni í kaupum og sölu á þessari vöru. Það verður hins vegar ekki lengur hægt að gera það bara með einu símtali í höfuðstöðvar ÁTVR. Það er nauðsynlegt að þetta liggi fyrir. En ég býst við því að ef til slíkra breytinga kemur verði góð samstaða um að afgreiða slík mál hratt og vel í gegnum þingið.

Út af ábendingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um hækkun á þessu gjaldi er nauðsynlegt að það komi fram að ákveðið var að frv. fæli eingöngu í sér þessa formbreytingu sem við erum að tala hér um, en hún væri hlutlaus að öðru leyti gagnvart tekjuöfluninni. Þannig var ákveðið að hrófla ekki við henni sérstaklega í þessu máli. Vitaskuld má segja að það hefði verið hægt en niðurstaðan varð sú að gera það ekki heldur láta þetta koma fram sem sagt á hlutlausum grundvelli gagnvart fjárhæðum sem þarna er um að tefla. Ef menn vilja breyta þessu í framtíðinni þá gerist það með því að flytja frv. til breytinga á þessum lögum, þ.e. eftir þessar breytingar.