Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:11:55 (3086)

2001-12-12 18:11:55# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:11]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man ekki eftir því að meiri hluti sjútvn. eða annarra nefnda taki svo afdráttarlaust til orða og hóti ráðherra með svo skýrum og ákveðnum hætti, að ef ekki verði það þingmál sem hann stendur fyrir að flytja afgreitt og því komið til umfjöllunar í þinginu, þá grípi nefndin til sinna ráða. Ég velti því svolítið fyrir mér hvaða stöðu þetta hefur allt saman gagnvart ráðherranum og hvort hann muni geta þolað slíka niðurlægingu sem það væri að nefndin tæki af honum ráðin og flytti hluta af þessari endurskoðun vegna þess að hann hefði ekki tök á því að ljúka málinu.

Ekki ætla ég að kveða upp dóm í því efni en auðvitað hljóta menn að taka mjög eftir þessu hvernig þarna er að málum staðið og menn munu fylgjast mjög náið og vel með því hvort menn standa nú við stóru orðin þegar á á að herða.