Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:41:38 (3103)

2001-12-12 20:41:38# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:41]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hættan við framsalið sé fyrst og fremst mórölsk. Það hefur verið blásið upp sem aðferð útgerðarmanna til þess að ná sér í auðfengið fé, að leigja frá sér aflaheimildir og þurfa ekki að fara sjálfir á sjó. Mér finnst hafa verið farið mjög illa með þetta í umræðunni. Þeir sem hafa leigt frá sér heimildir gera það oftast nær vegna þess að þeir hafa lent í að skip þeirra hafi dottið úr veiði um tíma ellegar að þeir eru að skipta á tegundum, tegundartilfærslur. Við gætum sagt að þetta hafi eitthvað verið misnotað fyrst í stað en ekki í seinni tíð. Ég held að smám saman hafi útgerðarmenn í raun fjarlægst þessa hugmynd, að hafa heimild til þess að leigja frá sér aflaheimildir, kaupa og selja. Ég held að það væri mjög slæmt ef fyrir þetta yrði tekið.

Í dag eiga útgerðarfyrirtækin sem eru hvað stærst, t.d. Samherji, Þorbjörninn, Grandi og fleiri, svo miklar aflaheimildir og hafa svo fjölþætt útgerðarform að þau þurfa ekkert að leigja til sín eða selja frá sér því þetta er allt innan þeirra eigin fyrirtækja. Fyrst og fremst gagnast þetta litlu útgerðunum sem eru að byrja. Það að einhverjir nýir aðilar geti komist inn í greinina byggist á því að til sé framsalsmöguleiki. Nýliðunin í greininni mun alfarið byggjast á því að menn hafi möguleika á því að bæta sér upp litlar aflaheimildir.