Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:55:41 (3111)

2001-12-12 20:55:41# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg nákvæmlega á því hvað hv. þm. er að meina. En ég hef oft heyrt hann tala um þessi mál áður og þykist því vita nokkurn veginn hvað hann er að tala um.

Við getum bent á mörg dæmi þess að pláss hafa misst skipin frá sér. Menn misstu þau af því að helsta fyrirtæki staðarins fór á hausinn og þar með var allt atvinnulífið í rúst. Þá þurfti að kaupa nýjan bát sem var ekkert endilega auðvelt hérna áður fyrr meðan veiðarnar voru frjálsar. Maður er búinn að heyra margar sögur um slíkt þegar menn voru að reyna að ná sér í báta og hittu pólitíkusa sem fóru með þá til bankastjórans og svona gekk þetta til, þó að veiðarnar hafi verið frjálsar var þetta ekki auðvelt.

Auðvitað verður þetta enn erfiðara þegar aðgangur er takmarkaður og því miður þarf að takmarka hann. Ég vil bara segja það að lokum, herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hægt væri að veiða frjálst. En þar sem það er ekki hægt tel ég að það kerfi sem við höfum sé þó það besta sem völ er á.