Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 21:54:53 (3116)

2001-12-12 21:54:53# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[21:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef bara reynt --- ég held að ég verði að segja það þó að mér sé málið skylt --- að gera nokkuð skilmerkilega grein fyrir viðhorfum mínum í þessum efnum í gegnum tíðina, og hafði m.a. fyrir því sem ekki margir aðrir hafa gert, held ég, að skrifa heila bók um viðhorf mín til sjávarútvegsmála, á árinu 1996 ef ég man rétt. Ég spái því að ef hæstv. sjútvrh. léti einhvern tíma svo lítið, sem mér þætti vænt um, að fletta aðeins upp í henni sæi hann að þar þegar eru auðvitað settar fram mjög miklar efasemdir um margt sem þá var í gangi eða við lýði í sjávarútveginum. Þar var prjónað upp með tillögur um að reyna að breyta kerfinu í grundvallaratriðum, ekki síst hvað varðaði t.d. fiskveiðistjórn smábáta og bátaflotans, skipta flotanum upp og hverfa frá í raun og veru þáverandi og enn þá verandi að miklu leyti kvótakerfi hvað varðaði þessa hluta flotans.

Ég er enn á svipuðum nótum að mörgu leyti hvað þetta varðar, sem sagt stöðu aflamarksins sem slíks í þessu. Ég hef ekki verið í gegnum tíðina neinn sérstakur talsmaður gjaldtökuhugmyndanna sem hér hafa tekið mikla orku, kannski skorið mig svolítið úr frá ýmsum öðrum í þeim efnum. Ég hef alltaf talið það aðalatriði málsins að menn reyndu að skoða heildarmyndina og hef margoft gert til þess tilraunir, vissulega ekki alltaf með miklum árangri, að draga inn í umræðuna sem að mínu mati hefur snúist allt of mikið um algjörlega afmarkaða þætti fiskveiðistjórnarkerfisins --- það er bara kvótakerfið og þá kannski þessar hugmyndir og spurningar um gjaldtöku eða skattlagningu --- að draga aðra hluti inn, þróunina sem var að verða í fiskvinnslunni, samþjöppunina, áhrifin á byggðirnar. Ég tel að einn galli þessarar umræðu hafi lengi verið að hún hefur verið allt of þröng.

Það er ótrúlegt að fyrir nokkrum vikum voru taldar fréttir á Íslandi að kannski dygði kvótakerfið eitt og sér ekki sem fiskveiðistjórnarkerfi. En það hefur aldrei verið. Fiskveiðistjórnarkerfið er og hefur allan tímann verið, eins og hæstv. sjútvrh. veit auðvitað mætavel, margsamsett. Ég vil ræða þessa hluti í því stóra samhengi sem ég hef gjarnan reynt að setja þá í.