Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 22:21:03 (3122)

2001-12-12 22:21:03# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[22:21]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir mjög merka ræðu að því er mér fannst. Ég er alveg sammála honum um það grundvallarviðhorf sem hann lýsti í ræðu sinni að kerfið sem slíkt á að nýtast fólkinu í landinu. Það á ekki bara að vera hugsað fyrir útgerðarmanninn. En gallinn á því að vera með þessar kvótasetningar eins og þær eru er að þá er verið að færa útgerðarmönnum sérstök réttindi í aflakvótum. Sá réttur fylgir ekki fólkinu. Hann fylgir þeim sem hann fær.

Þar af leiðandi eru hagsmunir fólksins oft og tíðum allt aðrir en hagsmunir þess sem veiðiréttinn fær jafnvel þó að veiðirétturinn sé verulega skertur frá þeim möguleikum sem menn höfðu áður, eins og er t.d. í því tilfelli sem hér er verið að leggja til, þ.e. að verið er að setja höft á þá sjósókn sem áður var og færa það yfir í kvótakerfi og færa þar af leiðandi útgerðarmanninum rétt til kvótans. En það hefur ekkert með fólkið í landinu að gera, atvinnuhorfur þess eða öryggi. Þvert á móti vinnur það gegn hagsmunum fólksins og veikir öryggi fólksins í byggðunum.

Það er einnig rétt sem hv. þm. sagði að það voru einkum tvær smugur og hafa lengi verið í þessu kvótakerfi okkar. Það voru smugur hinna kraftmiklu skipa sem gátu farið vítt og breitt um höf, norður í Smugu, á Flæmingjagrunn, út fyrir lögsögu og voru á sama tíma að leigja aflaheimildir sínar til annarra skipa flotans, m.a. vertíðarflotans, sem urðu þá að gerast leiguliðar að heimildum hinna sem þeir héldu meðan þeir voru að vinna sér inn ný veiðiréttindi. Þannig hefur þessi stóri og öflugi floti auðvitað haldið sínu í þessu kerfi og rúmlega það. Síðan voru smugur sem mynduðust við það að bátar voru úreltir og sjómenn af þeim urðu að fara á litlu skipin.