Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 23:07:09 (3131)

2001-12-12 23:07:09# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[23:07]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Mér finnst fyrst svona í framhaldi af því sem síðast hefur verið sagt ástæða til að nefna það að hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði þegar hann var að ganga hér úr ræðustól að margir milljarðar í álögur á útgerðina væru fjarri lagi.

Þó liggur fyrir að handhafar kvótans eru að innheimta gífurlega hátt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í svari frá hæstv. sjútvrh. þá innheimtu handhafar kvótans hvorki meira né minna en tæpa 12 milljarða á 33 mánuðum bara fyrir leigu á kvóta þann tíma sem Kvótaþing starfaði. (SvanJ: Bara innan ársins.) Það var bara leiga kvóta innan ársins, af aflamarki innan ársins. (GuðjG: 33 mánuðir ...) Á 33 mánuðum. (Gripið fram í.) Aflamarki er ævinlega úthlutað innan viðkomandi fiskveiðiárs. Þetta voru ekki varanlegar veiðiheimildir heldur leiga á aflamarki, þ.e. aflaheimildum innan viðkomandi kvótaárs. En á 33 mánuðum fóru veiðiheimildir fyrir 11,7 eða 11,8 milljarða á milli aðila í útgerð á Íslandi.

Mér verður á að spyrja: Hvar skyldu þau fyrirtæki vera staðsett í landinu sem hafa borgað þetta? Ætli það mundi nú ekki vera hægt að kalla þetta landsbyggðarskatt ef það auðlindagjald sem hv. þm. var að lýsa hér áðan að væri skelfilegt að sjá fyrir sér á landsbyggðina ætti skilið að vera nefnt því nafni.

Síðan langar mig til þess að gagnrýna það sem hv. þm. gerði hér. Hann tók fyrir yfirlýsingar frambjóðanda úr síðustu kosningum, gerði þær að stefnu Samfylkingarinnar og talaði um það nánast sem stefnubreytingu Samfylkingarinnar að hún skyldi ekki taka það upp sem stefnu sína sem einhver frambjóðandi í kosningum hafði látið fara frá sér. Ég spyr: Ef maður tæki upp svipuð vinnubrögð, ætti maður þá að kalla hér upp Sjálfstfl. í hvert einasta skipti um það að hann hafi skipt um stefnu þegar einhver sjálfstæðismaður hefur aðra skoðun en flokkurinn í ræðustól á Alþingi eða í fjölmiðlum? Mönnum hefur stundum orðið á að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal þegar hann hefur verið að lýsa skoðunum sínum hér hvort hann talaði sem fulltrúi flokksins.

Samfylkingin er ekki gamall flokkur og hún tók sér það fyrir hendur að ganga í að móta stefnu sína í sjávarútvegsmálum. Sú stefna liggur fyrir. Mér finnst engin ástæða fyrir hv. þm. að tala um þá stefnumörkun með því að segja: Hvað verður næst? Það er engin ástæða til þess. Ég tel að við getum fullkomlega borið virðingu fyrir þeirri stefnumörkun sem við leggjum vinnu í hver hjá öðrum í stjórnmálaflokkunum, og sú stefnumörkun sem Samfylkingin hefur lagt fram hvað þetta varðar er a.m.k. jafngóð og sú besta sem hefur verið lögð hér fram.

Ég nefndi þetta hér sem hefur verið að gerast, þ.e. að kerfið sem er í gangi, einkaeignarfyrirkomulagið á kvótanum, virkar þannig að menn selja veiðiheimildir fyrir þetta gífurlega háa verð, aðganginn að auðlindinni. Síðan hafa menn í dag verið að ræða fram og til baka um byggðarlögin sem sitja uppi veiðiheimildalaus og fólkið í þeim sem ekki sér glóru í því eða möguleika á að stofna til nýrrar útgerðar eða styrkja útgerð á stöðum vegna þessa verðs sem er á veiðiheimildunum. Þetta veldur því síðan að á Alþingi eru menn að taka sértækar ákvarðanir til þess að reyna að bjarga byggðarlögum frá kerfinu sem þeir vilja viðhalda.

Ég segi alveg eins og er að ég skil ekki hvers vegna það rennur ekki upp fyrir mönnum að til þess að þessi byggðarlög geti barist á eðlilegum jafnræðisgrundvelli, jafnréttisgrundvelli fyrir lífi sínu í atvinnulífinu, eins og menn gera almennt í atvinnulífinu á Íslandi, þarf aðgangurinn að veiðiréttinum að vera sem nærtækastur og menn þurfa að hafa jafnrétti og sömu möguleika til þess að nálgast veiðiréttindin. Það gerist einfaldlega ekki í því kerfi sem nú er í gildi. Öllum er ljóst að ekki er möguleiki á að stofna til nýrrar útgerðar í dag. Nú kostar líklega sjöfalt að stofna til útgerðar ef tekið er tillit til kostnaðar við skip og annað sem til þarf, plús veiðiheimildir, miðað við það sem áður var þegar menn þurftu eingöngu að leggja í kostnað við skipakaup og tæki. Það er sjöfalt dýrara. Það er enginn möguleiki að reka útgerð. Jafnvel þó að menn legðu af stað með mikið eigið fé í slíkt fyrirtæki væri útilokað að láta enda ná saman. Þetta sjá allir menn. Þess vegna er útgerðin í landinu að þróast eins og gerst hefur á undanförnum árum. Breytingar verða ekki aðrar en samruni fyrirtækja í þessu fyrirkomulagi sem hér er.

Síðan velta menn því fyrir sér fram og til baka, og eru ævinlega margir tilbúnir til þess að tala um það, að veiðiheimildir sem verið er að færa til innan þessa óréttláta kerfis séu veiðiheimildir sem verið sé að taka frá einhverjum og færa til annars. Bak við þetta hlýtur að liggja sú afstaða að þessir einhverjir eigi þessi veiðiréttindi. Nú er það ekki mín skoðun að þeir eigi þessi veiðiréttindi. Ég hef hins vegar þá skoðun að til þess að breyta þessu fyrirkomulagi þurfi menn að beita samræmdum aðgerðum og að það þurfi auðvitað að gerast sem allra fyrst. Það virkar auðvitað sem óréttlæti á meðan menn viðhalda þessu fyrirkomulagi þegar verið er að færa veiðiheimildir á milli aðila. Innköllun veiðiréttindanna og það að mynda jafnræði til þess að nálgast veiðiréttindin er það sem menn verða að horfast í augu við að verður að gerast. Annars munu menn standa áfram í sölum Alþingis til þess að reyna að rétta af byggðarlög í vanda, reyna að bjarga fyrirtækjum og útgerðarflokkum eða hópum manna sem lenda á vergangi. Og ævinlega eru menn að færa til gífurlegar fjárhæðir. Skyldu menn í þessum sal t.d. hafa velt því fyrir sér, bara svona augnablik, hvaða upphæðir gætu nú verið á ferðinni hvað það varðar að veita þeim bátum sem áður voru í dagakerfinu með 40 dögunum og 30 tonna hámarkinu, í staðinn fyrir að fara á kvótann sem þeim var úthlutað, réttindi til þess að fara inn í dagakerfið? Þetta eru um 90 bátar, eitthvað svoleiðis. Þeir eru 91 held ég þegar ... (GuðjG: 80.) Hv. þm. Guðjón Guðmundsson segir að þeir séu 80. Ég sá tölu sem var svolítið hærri. Síðan máttu, held ég, þrír eða fjórir bátar bæði veiða með handfærum og línu og þeir fylgja með inn í þetta þannig að þetta munu vera langleiðina í 90 bátar alla vega.

[23:15]

Þessir bátar fengu úthlutað að meðaltali um 8,5 tonnum held ég 1. september í haust. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvaða verðlag maður á að reikna með að hafi verið á veiðiheimildum þeirra undanfarið en það gæti vel verið að þar hafi verið um að ræða 600 krónur, eitthvað þar um bil. Þá mundi hver bátur að meðaltali hafa verið með veiðiheimildir sem væru verðlagðar á um 5 millj.

Ef við gefum okkur hins vegar að þessir bátar mundu allir sækja um að fara inn í dagakerfið og fengju 21 dag til þess að róa, hvað skyldu þá skipasalar í dag verðleggja hvern dag í því kerfi? 800 þúsund. Veiðiréttindin eru metin á 16 millj. samkvæmt þessu. 10--11 millj. á hvern einstakan bát sem þarna er um að ræða verða þá til með þeim hætti sem við erum að ræða hér um. Ef þetta eru hátt í 90 bátar, þá eru þetta nú ekki mikið minna en um 900 milljónir í verðmæti.

Ævinlega er verið að tala um mjög stórar tölur þegar verið er að tala um veiðiréttindi á Íslandsmiðum. Ég held að það óréttlæti sem menn hafa búið til með hinum ýmsu aðferðum hér og tilraunum sem ég býst við að allar hafi verið vel meintar til að reyna að lagfæra og koma til móts við þá sem hafa orðið undir, reyna að bjarga einhverjum byggðarlögum eða hópum útgerðaraðila, allt hefur þetta verið vel meint. En alltaf standa menn í sömu sporunum aftur, það er nóg starf áfram til að bjarga og nóg af vandamálum til að leysa og óréttlætið verður hróplegra með hverju árinu sem líður.

Endurskoðun á grunni þessa kerfis verður að fá að fara fram og hún þarf að fara fram sem allra fyrst. Ég ætla ekki að fara hér í langa ræðu, mig langaði hins vegar að taka til máls í lokin. Ég tel að það sé ekkert að gerast með þessu frv. sem breytir hinum eiginlega grunni kerfisins. Menn eru að koma til móts við vissa hópa, reyna að draga úr vanda, og ég misvirði það ekki með neinum hætti. Ég skil það vel að menn skuli vilja gera það. Ég gagnrýni það hins vegar harðlega að menn skuli ekki vilja ráðast að grunni þessa kerfis og koma á jafnræði til þess að nýta auðlindina. Það er það sem vantar og í það verða menn að fara. Stjórnarflokkarnir virðast ætla sér að fara sína leið í þessu máli. Það er boðað hér af hæstv. ráðherra að menn ætli að leggja fram frv. á grundvelli niðurstöðu þess meiri hluta sem varð til í hinni svokölluðu sáttanefnd, og það er eitt sem sú niðurstaða tryggir örugglega, hún tryggir áframhaldandi átök um stjórn fiskveiða á Íslandi og hún tryggir það að þau átök munu harðna ef eitthvað er frá því sem þau hafa verið.

Mig langar aðeins að nefna eitt vegna þess að það kom upp í umræðunni áðan í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þ.e. hvort fleiri fiskstofnar væru við Ísland. Ég vil vekja athygli á því að Hafrannsóknastofnun og forstöðumaður hennar hefur farið um landið og hefur boðað að Hafrannsóknastofnun telji að þetta geti verið mögulegt. Ég lít þannig á að ábyrgur aðili eins og forstjóri Hafrannsóknastofnunar geri ekki svona lagað nema hann telji nokkuð víst að svo sé, að fleiri en einn þorskstofn séu við Ísland. Það virðist liggja nokkuð í augum uppi, að ef þetta er rétt er stjórn fiskveiða á þeim grundvelli, þ.e. veiðireglunnar sem hefur gilt, úti í vindinum. Hún er bara della. Að veiða 25% af veiðistofninum, eins og lagt hefur verið til, hefur byggst á því að hér við land sé einn þorskstofn. Það hljóta allir menn að sjá að séu þeir margir þá er þessi regla fáránleg.

Það sem mér hefur fundist mjög athyglisvert í þessu sambandi er að það eru ekki nema um 11 ár eða svo, 10 eða 11 ár síðan Hafrannsóknastofnun hafði þá skoðun að stærð hrygningarstofnsins hefði ekkert með það að gera hvernig hrygningin tækist. Talið var að svo lítinn hóp þorska þyrfti til þess að tryggja hrygninguna að stærð hrygningarstofnsins skipti engu máli. Eftir að þorskstofninn lenti í þeim hremmingum sem við höfum fengið að sjá á síðustu árum miðað við þær upplýsingar sem Hafrannsóknastofnun hefur gefið, þá hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þorskstofninn þurfti að vera miklu stærri til að tryggja örugga hrygningu. Og sú stefna hefur verið tekin upp að ekki megi veiða meira en 25% af veiðistofninum, allt miðað við að það sé einn þorskstofn við landið.

Fyrir tíu árum var talið, ef ég man rétt og ég er ekki að fara nákvæmlega með tölur en til vísbendinga, að 60--80% af allri hrygningunni hafi farið fram við suðvesturhornið eða suðvestur af landinu, við suðurströndina og suðvesturströndina. Síðan hefur þetta breyst þannig að í gögnum Hafrannsóknastofnunar hafa komið fram meiri og meiri upplýsingar um stærri og stærri hluta hrygningarinnar á ýmsum stöðum allt í kringum landið. Nú er svo komið að þessi stærsti hrygningarstofn sem er staðsettur suðvestur af landinu skilar einungis 30% eða svo af heildarhrygningunni í kringum landið. Og mér verður á að velta því fyrir mér: Ef einhver glóra væri í 25%-reglunni, hvernig stendur þá á því að hún hefur ekki orðið til þess að eyðileggja þessa litlu stofna allt í kringum landið með þessum stjórnlausu veiðum? Vegna þess að því hefur náttúrlega ekkert verið stjórnað hvar fiskurinn hefur verið veiddur hvað varðar hina einstöku litlu stofna í kringum landið. Maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hvort þessi kenning, ofveiðikenning Hafrannsóknastofnunar sé þá fallin. Hvernig stendur á því að litlu fiskstofnarnir í kringum landið eru að stækka á sama tíma og stærsti stofninn minnkar eftir að þessi regla hefur verið tekin upp? Ég hefði talið að ef reglan væri nauðsynleg hefði hún í þessu tilfelli, ef við gefum okkur að um nokkra stofna sé að ræða, eins og Hafrannsóknastofnunarmenn eru að láta sér detta í hug, þá hefði hún bara valdið því að við hefðum verið að veiða upp hina einstöku stofna, einn eða tvo þetta árið og þá næstu hitt árið. Nei, nei, í stað þess þá stækka litlu stofnarnir en sá stærsti minnkar.

Ég held því fram að fara þurfi mjög vandlega yfir þessi mál með Hafrannsóknastofnun og fá botn í hvaða skýringar eru á þessu. Þær kunna að vera einhverjar. Það getur vel verið að gögn Hafrannsóknastofnunar hafi ekki verið nægilega nákvæm eða eitthvað annað komið til sem ég hef ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug. En það er ástæða til að velta þessu fyrir sér og alveg sérstaklega vegna þess að forstjóri stofnunarinnar hefur farið um og verið að tala um þessa hluti.

Oft höfum við nú blandað saman í þeirri umræðu sem fram hefur farið um stjórn fiskveiða, bæði kerfinu sjálfu, eignarhaldinu á veiðiheimildunum, kvótakerfinu og árangrinum af því til að stjórna fiskveiðum. Við höfum oft farið yfir þá dapurlegu umræðu hversu skammt okkur hefur miðað, standandi uppi með það að vera ekki að veiða meira úr einum einasta fiskstofni, við erum ekki að veiða meira, við erum að veiða minna úr öllum fiskstofnum öðrum en uppsjávarfiski frá því að kvótakerfið var tekið upp. Það er því ástæða til að menn velti öllum þeim hlutum fyrir sér og fari yfir þá upp á nýtt. Ég er alveg tilbúinn til þess að skoða aðrar hugmyndir annaðhvort í bland við það kerfi sem nú er eða sem hugmyndir til að að taka við af því, ef við fáum góð rök fyrir að reyna það. Ég sé enga ástæðu til þess að fylgjast ekki af gaumgæfni með tilraunum annarra, bæði Færeyinga og annarra, og mér finnst að við höfum kannski æðioft verið of góðir með okkur, Íslendingar, og talað eins og við værum að gera alla hluti betur en allir aðrir, við værum með besta kerfi í heimi og gerðum alla hluti betur en þeir sem eru að reyna sig við sömu verkefni annars staðar.

Ég vildi að þetta kæmi fram vegna þess að mér hefur fundist að menn hafi kannski ekki borið fullkomlega virðingu fyrir frændum okkar Færeyingum sem hafa ekki viljað hafa sams konar kerfi og við. Ég held hins vegar að þeir eigi nokkuð augljóslega eftir að lenda í ákveðnum vanda með sitt kerfi. Það kom fram á fundinum sem var á Ísafirði, ég var á honum, að þeir eru ekki farnir að lenda í hremmingum vegna eignarhaldsins á veiðiréttinum en augljóst er að þeir munu gera það. Sá vandi er ekkert síður fyrir hendi í sóknarstýringarkerfi en í kvótakerfi og það er ekkert vafamál að það mun kosta mikla fjármuni að fá að veiða fisk við Færeyjar. Ég held ekki neinu fram um hversu mikla fjármuni en þetta eru auðvitað verðmæti þegar farið er að stjórna veiðunum og takmarka aðganginn, þá verða þetta verðmæti og menn munu ævinlega lenda í vanda þess vegna ef menn hafa ekki komið upp almennum, sanngjörnum reglum sem leysa þau mál þannig að ekki verði til óréttlæti með sama hætti og þróast hefur hér. Það verður erfitt. En það mun auðvitað verða gert, að fara út úr því kerfi sem er á Íslandi. Ég vona bara að sem flestir fari að taka þá ákvörðun að vilja standa að alvöruendurskoðun hvað varðar eignarhaldið á veiðiréttinum.