Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:22:56 (3246)

2001-12-13 18:22:56# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú reyndar þannig, eins og hv. þm. veit, að þó þessi þáttur er snýr að skólagjöldunum sé hafður sem hluti af ráðstöfunum í ríkisfjármálunum núna þá er í raun verið að uppfylla skilyrði sem fram komu þegar fjárlögin voru lögð fram. Þá var gert ráð fyrir aðgerðum af því tagi og sú ákvörðun var tekin við gerð fjárlagafrv. en ekki við gerð bandormsins sem hér er til umræðu.

Eins og fram hefur komið við umræðuna í dag þá lítur ríkisstjórnin þannig á að í raun sé verið að færa heimildir háskólanna til gjaldtöku, því heimildarákvæði eru þetta, í átt að verðlagsþróun --- ekki fyllilega til hennar en í átt að verðlagsþróuninni. Þess vegna höfum við ekki litið á það sem afleitan kost þó það hafi verið gagnrýnt.

Auðvitað er hægt að tína til marga hluti og segja: Af hverju ekki þetta í staðinn fyrir hitt o.s.frv. Ég tel því ekki að það sé fær kostur á síðustu stigum þessa máls að breyta um kúrs hvað þetta varðar.