Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 23:57:05 (3296)

2001-12-13 23:57:05# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[23:57]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Frv. til laga um leigubifreiðar, sem hér hefur verið til umræðu, er kannski ekki mjög stórt mál. Það snýst um að færa málaflokkinn úr samgrn. til Vegagerðarinnar, halda utan þessi takmörkuðu gæði, eins og hér er getið um í frv., og fela Vegagerðinni að sjá um þau, búa til nýjan gagnagrunn til að halda utan um leyfisveitingar, orlof, leyfi og allt það dæmi. Ég tala um að búa eigi til nýjan gagnagrunn vegna þess að á fundi samgn. kom fram hjá viðmælendum sem þangað komu að nú þegar er til gagnagrunnur hjá Bifreiðastjórafélaginu Frama, sem heldur um hann. Þó var, að sögn ráðuneytismanna, ekki gert ráð fyrir að kaupa þann gagnagrunn eða taka hann yfir heldur búa til nýjan. Þessi gagnagrunnur er m.a. notaður sem rökstuðningur fyrir því að það þurfi að rukka þetta 10 þús. kr. gjald á ári til að standa undir þeim kostnaði sem þar til fellur.

Vonandi tekur ekki langan tíma að smíða þennan gagnagrunn. Eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, formanni samgn., verður þessi gagnagrunnur búinn til mjög fljótlega og vonandi kostar það ekki háar fjárhæðir. Það var á hv. þm. að skilja að með því gæti þessi leigubílaskattur lækkað. Það væri vissulega hið besta mál ef svo færi.

Ég gagnrýndi þennan skatt við 1. umr. þegar frv. var flutt og geri það enn. Ég gagnrýndi þá að í reglugerð er kveðið á um að ef leigubílstjóri taki sér orlof þá skuli það standa í viku og helgin skuli falla inn í það. Eins og við vitum þá er nú sennilega helgin eini tíminn sem gefur verulega af sér og gefur sæmilegar tekjur til leigubílaaksturs.

Ég harma að það skuli ekki sett hér inn í lögin sem getið er um í nál. meiri hlutans. Þar er bent á orlofslög og annað, eða eins og hér segir:

,,Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðherra gæti þess við setningu reglna um undanþágur, sbr. 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins, að leigubifreiðastjórar njóti sambærilegs orlofsréttar og almennt gerist og að ákvæða laga nr. 30/1987, um orlof, sé gætt í hvívetna.``

[24:00]

Það er svo sem ágætt að það komi fram í nál. meiri hlutans. Ég hefði talið betra að þetta yrði sett inn í lögin en svo er ekki, því miður.

Annað atriði sem ég gagnrýndi mjög við 1. umr. og hefur verið fallist á og tekið út, sem betur fer, var það ákvæði sem var hér í 2. mgr. 5. gr. sem snerist um að leigubílstjórar skyldu eiga a.m.k. 35% eignarhlutdeild samkvæmt samningi við löggilt kaupleigufyrirtæki. Þetta gagnrýndi ég strax við 1. umr. og fagna því að það hefur verið tekið út og haft bara frjálst vegna þess að nú á tímum eru alls konar eignarform komin á. Menn geta verið með rekstrarleigusamning um sína bíla, menn geta gert samning við kaupleigufyrirtæki um stærri eignarhluta o.s.frv. Þess vegna fagna ég því að það skuli hafa verið fellt úr. Það er veigamikill ávinningur.

Því miður náðist ekki út það versta í þessu frv., leigubílaskatturinn. Það hefur áður komið fram hvernig þessi skattur var í byrjun 5.000 kr., og er það núna miðað við úthlutun leyfa sem gátu þess vegna verið til 25 ára. Síðan voru þarna á reiki tölur eins og 8.000, skoðaðar í byrjun, sem fóru svo í 16.000 kr. Þegar frv. var flutt var talan 13.000 og nú í meðförum nefndarinnar hefur hún lækkað ofan í 10.000. Öll er þessi lækkun hið besta mál en ég ítreka að við sem skipum 2. minni hluta samgn. erum á móti þessum skatti. Hann er kannski ekkert voðalega stór þegar horft er á hann sem 10.000 kr., ef menn vita ekki að það eru ýmsir aðrir skattar greiddir af þessari atvinnustarfsemi. Til ríkissjóðs greiðir nú hver leigubílstjóri 7.500--8.000 kr. á mánuði bara í virðisaukaskatt af því að leigja tölvu, sem er nútímatæki í nútímaleigubílum, til þess að gefa út reikning og mæla gjaldið. Leiga á þessum tölvum getur verið 9.000 kr. og þar af fær ríkissjóður 2.205 kr. þannig að þetta gjald er rúmar 11.000 kr. Leigubílstjóri greiðir stöðvargjöld sem líka bera virðisaukaskatt, og borgar líka húsaleigu sem gerir það að verkum að þetta er skattur upp á 31.000 kr., þar af er virðisaukaskattur tæpar 5.400 kr.

Með öðrum orðum, herra forseti, ég tel vera komið nóg af þessari skattheimtu og að þessi atvinnugrein greiði nú þegar nægjanlega mikið til ríkisins. Ég vil geta þess líka að á tímum samdráttar, nú þegar góðærinu er lokið, býr þessi atvinnugrein við samdrátt eins og ýmsar aðrar atvinnugreinar í landinu. Við vitum það auðvitað, og því munu öll þessi föstu gjöld tifa miklu hærra og vega þungt í heildarútkomunni.

Jafnframt sagði ég við 1. umr. að þótt ég sé ósáttur við þennan skatt á landsvísu er ég náttúrlega mjög ósammála því að hann skuli líka vera lagður á leigubílaakstur í hinum dreifðu byggðum landsins, minni sveitarfélögum, þar sem þetta er ekki grein sem rekin er með miklum hagnaði heldur miklu frekar af miklum áhuga, áhuga viðkomandi fyrir byggðarlagi sínu og að bjóða upp á þessa þjónustu þó að hún sé kannski ekki mikið notuð en þurfi engu að síður að vera til staðar.

Þessi gjaldheimta er náttúrlega allt of mikil. En það má segja líka að þetta hafi skánað af því að þessi umsýsla getur farið til viðkomandi sveitarfélaga, samkvæmt þessum lögum, og þá greiðist viðkomandi gjald til viðkomandi sveitarfélags sem getur þá í sjálfu sér hafnað því --- enda er umsýslan í kringum það kannski ekki mikil --- og lagt það niður.

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, frsm. 2. minni hluta, ég er hér með honum á nál. 2. minni hluta, hefur farið afar vel í gegnum þetta mál og skýrt sjónarmið okkar. Ég vildi þó hnykkja á helstu atriðum sem mér finnst vera í þessu frv. Ég held að það sé ekkert endilega á verri veg að málaflokkurinn sé færður frá ráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Ég set stórt spurningarmerki við gagnagrunninn. Leigubílaskattinum er ég algjörlega á móti og tel að við eigum ekki að ganga þá göngu núna. Ég held að það sé bara ekkert fleira sem ég vil segja um þetta litla frv. en ég ítreka andstöðu mína við frv. vegna þess að þessi skattur er þarna inni sem ég vil helst ekki sjá í þessari grein.