Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 13:00:15 (3343)

2001-12-14 13:00:15# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[13:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ástæðulaust að við hæstv. forsrh. eyðum tíma þingsins í að velta vöngum yfir þessum tölum. Þær liggja allar fyrir. Ég get bara lesið upp úr gagnagrunni Hagstofunnar hvernig verðbólgan hefur mælst milli mánaða, fært yfir á ársgrundvöll, mánuðina ágúst, september, október, nóvember, desember. Þær tölur eru: Í ágúst 7,9%, í september 8,4%, í október 8,0%, í nóvember 8,1% og í desember 8,6% --- (Forsrh.: Horft tólf mánuði aftur í tímann.) reiknað tólf mánuði aftur í tímann út frá verðlagsbreytingunum milli mánaða. Það er vissulega alveg hárrétt sem hæstv. forsrh. bendir á í því sambandi.

Í tengslum við grænmetispakkann koma til útgjöld ríkissjóðs, gott og vel. En eins og ég hef þegar bent á lá sú niðurstaða fyrir í tillögum nefndar sem starfaði í reynd óháð þessum hlutum. Þar færast til gjöld. Þar er ekki verið að leggja á nýjar álögur í raun og veru. Verð á innfluttu grænmeti á að lækka á móti og þar hverfa tollar sem áður voru teknir í ríkissjóð af því. Í staðinn fyrir að neytendur borgi í gegnum vöruverðið borga þeir það sem skattgreiðendur úr ríkissjóði í formi beingreiðslna til innlendu framleiðslunnar.

Þegar upp er staðið má í raun segja að þetta sé fremur tilfærsla í þessum skilningi en annað, auk þess sem þeir fjármunir fara að sjálfsögðu í umferð frá þeim sem þeirra njóta, skulum við vona. (Forsrh.: Þetta er manneldismál.) Auk þess er þetta manneldismál og hið besta mál á allan hátt og ég styð það af því að ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við höfum hér öflugan innlendan landbúnað og eru þá vonandi allir harla sáttir.