Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:23:51 (3376)

2001-12-14 15:23:51# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þm. til að gefa brtt. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar gaum.

Þessi óskapnaður sem er hér á ferðinni, þar sem ætlunin er að taka á málum tveggja sveitarfélaga, er engin lausn í málinu. Hæstv. félmrh. hefur skipað nefnd sem hefur skilað áliti um vandann sem um er að ræða í húsnæðiskerfinu. Vandinn er upp á 2,8 milljarða kr. Það er að slökkva elda þegar þeir koma upp að haga sér eins og hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera núna. Ein af stærri byggðaaðgerðunum væri að fá tillögu sem miðaði að því að laga lögin þannig að hægt verði að taka á þessum málum fyrir sveitarfélögin í heild sinni.

Ætlar Alþingi í framhaldi af þessu að taka síðan hvert sveitarfélagið af öðru? Við verðum að fá heildstæða lausn á þeim stóra vanda sem við er að glíma um allt land og hefur verið reiknaður á 2,8 milljarða. Ég krefst þess að þannig verði tekið á málum. Ég sætti mig ekki við slökkvistarf af þessu tagi líkt og með fiskveiðistjórnarlögin sem voru samþykkt hér áðan. Staðbundin mál --- plástralækningar.

Með því að samþykkja brtt. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hefur hæstv. félmrh. möguleika á að gera betur. Ég held að allur þingheimur vilji innst inni taka á vandamálunum varðandi þessa 2,8 milljarða sem við eigum öll og berum öll ábyrgð á. Vandamálið er þarna. Smáskammtalækningar stoða ekkert. Þess vegna bið ég þingmenn um að styðja þessa tillögu og gera öllum sveitarfélögum landsins gott með heildstæðri lausn.