Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 39  —  39. mál.
Frumvarp til lagaum að lögleiða ólympíska hnefaleika.

Flm.: Gunnar Birgisson, Kristinn H. Gunnarsson, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller,
Guðmundur Árni Stefánsson, Einar Már Sigurðarson, Vilhjálmur Egilsson,
Einar Oddur Kristjánsson, Svanfríður Jónasdóttir, Einar K. Guðfinnsson,
Guðjón A. Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gísli S. Einarsson, Hjálmar Árnason,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigríður Ingvarsdóttir.


1. gr.


    Heimil er keppni og sýning á ólympískum hnefaleikum. Enn fremur er heimilt að kenna ólympíska hnefaleika.

2. gr.


    Heimil er sala og notkun hnefaleiksglófa og annarra tækja sem ætluð eru til þjálfunar í ólympískum hnefaleikum.

3. gr.


    Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur reglur um ólympíska hnefaleika.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpið var lagt fram á 125. löggjafarþingi en var þá fellt. Það var lagt fram aftur á 126. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt. Er það nú lagt fram á ný óbreytt.
    Frá árinu 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi en fram að þeim tíma voru þeir allnokkuð iðkaðir. Með frumvarpi þessu er lagt til að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Rétt er að taka fram að ólympískir hnefaleikar eru keppnisgrein á Ólympíuleikum og hafa verið það lengi. Algjört einsdæmi er að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf. Aðild að Ólympíuleikum felur í sér viðurkenningu á þeim greinum sem keppt er í á leikunum hverju sinni.
    Gera verður skýran greinarmun á annars vegar ólympískum hnefaleikum, með öðrum orðum áhugamannahnefaleikum, og hins vegar atvinnumannahnefaleikum sem eru stundaðir í öllum heimsálfum. Reglur og öryggiskröfur greinanna eru afar ólíkar. Þannig er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf


Prentað upp.

lotum í atvinnumannahnefaleikum. Alvarleg slys eru þekkt í atvinnumannahnefaleikum en þannig slys hafa ekki orðið í áhugamannahnefaleikum vegna hinna ólíku reglna sem um þá gilda. Samkvæmt sænskri rannsókn frá árinu 1990, sem Yvonne Haglund læknir gerði á því hvort varanlegur skaði gæti orðið á heila af völdum áhugamannahnefaleika, virðist svo ekki vera sé fylgt ströngum áhugamannareglum eins og í Svíþjóð.
    Lögð er áhersla á að það á að vera á valdi hvers einstaklings að ákveða hvaða íþrótt hann kýs að stunda. Að öðru leyti standa óbreytt lög nr. 92/1956 sem banna hnefaleika í atvinnuskyni.