Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 40  —  40. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á vopnalögum, nr. 16 25. mars 1998.

Flm.: Ásta Möller, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson,


Drífa Hjartardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jóhanna Sigurðardóttir, Katrín Fjeldsted.

1. gr.


    32. gr. laganna orðast svo:
    Bannað er að selja eða afhenda skotelda einstaklingi yngri en 18 ára. Heimilt er þó að selja þeim sem eru eldri en 15 ára skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fyrir á 126. löggjafarþingi en ekki náðist að afgreiða það. Því er frumvarpið flutt að nýju efnislega óbreytt, en með orðalagsbreytingum.
    Samkvæmt 1. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, er með skoteldum átt við flugelda, reyk- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrautelda. VI. kafli vopnalaga fjallar um meðferð skotelda. Þar er m.a. kveðið á um að sala eða afhending skotelda til barna yngri en 16 ára sé bönnuð sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum og að öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára sé óheimil.
    Ráðherra er heimilt skv. 33. gr. vopnalaga að setja reglur um að ekki megi selja almenningi ýmsar skaðlegar tegundir skotelda og um sérstakt eftirlit í því skyni. Núgildandi reglugerð um sölu og meðferð skotelda, nr. 536/1988, er frá 19. desember 1988, en samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn um sölu og eftirlit með skoteldum á 125. löggjafarþingi (fylgiskjal I) hefur reglugerðin verið til endurskoðunar um nokkurt skeið í ráðuneytinu. Markmið endurskoðunarinnar er að samræma og endurbæta þessar reglur og auka öryggi í meðferð skotelda. Samkvæmt upplýsingum dómsmálaráðuneytisins verður hún birt innan skamms.
    Hér á landi hefur athygli og umræður um skotelda og slys af völdum þeirra að öllu jöfnu verið bundin við áramót, enda er almenn notkun og sala skotelda til almennings einungis heimil á tímabilinu 27. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum, nema með leyfi lögreglustjóra, samkvæmt núgildandi reglugerð um sölu og meðferð skotelda.
    Samkvæmt 32. gr. vopnalaga er ekki leyfilegt að selja og afhenda skotelda til barna undir 16 ára aldri nema þess getið í leiðbeiningum. Sala á skoteldum er óheimil til barna undir 12 ára aldri. Samkvæmt þessu ákvæði er það lagt í hendur framleiðanda eða innflytjanda vörunnar að taka ákvörðun um hvort heimilt sé að selja vöruna börnum yngri en 16 ára, en það er í verkahring hans að sjá um að leiðbeiningar um meðferð vörunnar séu límdar á hana.
    Almenn notkun skotelda um áramót er mikil. Tíðni slysa af völdum skotelda hér á landi er há og á það sérstaklega við um slys á börnum. Nauðsynlegt er að herða öryggisreglur um meðhöndlun skotelda og reglur um sölu á skoteldum og endurskoða aldursmörk við sölu þeirra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þróunar í nálægum löndum þar sem aldursmörk um sölu á skoteldum hafa verið færð upp til 18 ára aldurs og tekin hefur verið upp flokkun á skoteldum.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að aldursmörk við sölu skotelda séu færð úr 16 ára aldri til 18 ára aldurs. Þó sé heimilt að selja börnum frá 15 ára aldri skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss. Skoteldar sem ætlaðir eru til notkunar innan húss eru t.d. reykbombur, innisprengjur, borðsprengjur, kastbombur, skrauteldspýtur, knöll og snákar. Að jafnaði er miðað við að áhrifasvæði skotelda sem falla undir þessa skilgreiningu sé að hámarki 0,5 m radíus frá kveikjustað og falla stjörnuljós því undir þennan flokk skotelda, þótt þau séu almennt notuð utan húss. Þetta eru skoteldar sem falla í flokk 1 samkvæmt evrópskum stöðlum um flokkun skotelda. Gert er ráð fyrir að ný reglugerð um skotelda, sem væntanleg er innan tíðar, setji skýrari reglur um flokkun þeirra. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 32. gr. vopnalaga yrði það ekki lengur á valdi framleiðanda eða innflytjanda að ákvarða hvaða skotelda megi selja til yngri aldurshópsins heldur yrði skýrt kveðið á um það í lögum og nánar útfært í reglugerð um skotelda.

Sala skotelda.
    Á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg aukning á framleiðslu, innflutningi og sölu skotelda hér á landi. Má í eiginlegri og óeiginlegri merkingu tala um sprengingu í þessu sambandi. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á 125. löggjafarþingi um skotelda (fylgiskjal II) kemur fram að framleiðsla á skoteldum á Íslandi hefur aukist verulega undanfarin ár. Framleiðslan jókst um 36% frá 1998 til 1999, en um 60% í stykkjum talið á fimm ára tímabili, 1995–99. Að sama skapi hefur innflutningur á skoteldum margfaldast á undanförnum árum. Hann jókst um 100% frá 1998 til 1999, en hefur nær fjórfaldast á fimm ára tímabili, 1995–99 (úr 147 tonnum á árinu 1995 í rúmlega 550 tonn 1999).
    Þau sérstöku tímamót sem urðu um áramótin 1999/2000 höfðu áhrif á aukna sölu skotelda, en samkvæmt könnun Gallup stefndu um 71% Íslendinga að því að skjóta upp flugeldum um þau áramót. Þá hefur aukin almenn velmegun í landinu einnig haft sitt að segja í þessum efnum. Til þess bendir m.a. fyrrgreind aukning á innflutningi og sölu skotelda. Innflutningur og sala á skoteldum í tilefni áramótanna 2000/2001 var að mati söluaðila álíka mikil og áramótin þar á undan.

Slys af völdum skotelda.
    Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á slysum af völdum skotelda hér á landi. Í athugun augnlæknanna Haraldar Sigurðssonar, Guðmundar Viggóssonar og Friðberts Jónassonar um augnáverka af völdum augnslysa, sem birtist í Læknablaðinu árið 1991, voru skoðaðir augnáverkar af völdum skotelda á 13 ára tímabili 1978–91. Á tímabilinu höfðu 15 manns hlotið áverka á augum af völdum skotelda og voru lagðir inn á sjúkrahús vegna þeirra. Langflestir voru undir 20 ára aldri eða 12 talsins, þrír þeirra voru undir 10 ára aldri. Það eru aðallega drengir sem slasast. Flest slysin voru um áramótin 1987/1988 eða fimm og höfðu þrír þeirra fengið áverka af völdum „tívolíbomba“ sem voru bannaðar í kjölfarið. Átak í fræðslu um meðhöndlun skotelda áramótin á eftir leiddi til fækkunar augnslysa.
    Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á 125. löggjafarþingi um tíðni slysa af völdum skotelda (fylgiskjal III) kemur fram að frá kl. 12 á gamlársdag 1999 til sama tíma á nýársdag árið 2000 leituðu 23 manns til slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur (nú Landspítala – háskólasjúkrahúss, Fossvogi) vegna áverka af völdum einhvers konar sprengna, blysa, tertna eða flugelda. Karlmenn voru í meiri hluta (19) og voru flestir á aldrinum 3–10 ára (9) og 37–47 ára (10). Þrjá þurfti að leggja inn á sjúkrahús. Yfirleitt höfðu hinir slösuðu ekki notað öryggisbúnað eins og hlífðargleraugu og hlífðarhanska. Stórar sprengjur ollu alvarlegustu áverkunum. Þetta eru tvöfalt fleiri slys en vant er um áramót.
    Í samantekt Haraldar Sigurðssonar augnlæknis um skoteldaslys um áramótin 1999/2000, dags. 31. janúar 2000, kemur fram að sex sjúklingar (þar af þrír sem komu ekki frá SHR), allt karlmenn og helmingur undir tvítugu, leituðu til augndeildar Landspítalans vegna áverka af völdum skotelda. Þar af þurftu fjórir sérhæfða þjónustu, en tveir fengu skoðun án innlagnar. Tveir munu sennilega bera varanlegan skaða eftir þessi slys. Enginn þeirra notaði öryggisgleraugu. Þessar tölur benda til alvarlegs ástands þessara mála og slaga hátt í áramótin 1987/1988 en slysin þá vöktu mikil viðbrögð.
    Samkvæmt athugun yfirlæknis slysa- og bráðamóttöku og í samantekt Slysavarnafélagsins Landsbjargar um flugelda áramótin 1999/2000, sem birtist í tímariti samtakanna, Fréttir, 1. tbl., 2. árg. 2000, bls. 20, kemur fram að á tímabilinu 28. desember 1999 til 2. janúar 2000 leituðu alls 35 manns til slysa- og bráðavaktar Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna slysa af völdum skotelda. Þar af var 21 á aldrinum 0–19 ára og 13 þeirra á aldrinum 10–14 ára. Af hinum slösuðu var 31 karlkyns. Upplýsingar um slys af völdum skotelda frá öðrum landshlutum liggja ekki fyrir.
    Í samantekt Landsbjargar kemur fram að undanfarin áramót hafi að meðaltali um tíu manns leitað á slysadeild Reykjavíkur vegna flugeldaslysa á nýársnótt, en ljóst er að rúmlega tvöfalt fleiri þurftu aðstoð og aðhlynningu um áramótin 1999/2000 en áður. Athygli vekur hve margir hinna slösuðu eru ungir, en 60% þeirra eru 19 ára og yngri og 37% af öllum slösuðum eru strákar á aldrinum 10–14 ára. Þegar slys verða má í mörgum tilvikum kenna um óvitaskap, óvarkárni og því að ekki er farið eftir leiðbeiningum.
    Samkvæmt niðurstöðum ýmissa rannsókna á áverkum af völdum skotelda kemur fram að brunar og sár á höndum og andliti eða öðrum hlutum líkamans eru algengastir, auk augnáverka, heyrnarskemmda og beinbrota.
    Slysa- og bráðasvið Landspítala – háskólasjúkrahúss, Fossvogi gerði athugun á fjölda og áverka slasaðra sem komu á slysa- og bráðamóttöku sjúkrahússins um áramótin 1999/2000 vegna sprengjuslysa. Þar kemur fram að áverkar í andliti og/eða augum hafi verið algengastir, en einnig var um að ræða áverka á höndum og fingrum. Í nær öllum tilvikum var um bruna að ræða, en nokkrir hlutu sár og skurði, sem og beinbrot. Einnig kemur fram í athugun deildarinnar að hefðbundinn öryggisbúnaður, eins og hlífðargleraugu og hanskar, var í fæstum tilvikum notaður.
    Eftir því sem næst verður komist voru slys af völdum skotelda um áramótin 2000/2001 færri en áður og má finna ýmsar skýringar á því. M.a. hefur verið bent á að töluverð umfjöllun varð um slys af völdum skotelda í fjölmiðlum fyrir áramótin, m.a. mikil umræða um það frumvarp sem lagt var fram á síðasta hausti og er nær samhljóða því sem nú er lagt fram. Þessi umræða hefur sennilega vakið fólk til umhugsunar um hættu sem börnum stafar af meðhöndlun skotelda.
    Undanfarin ár hefur verið rekinn áróður fyrir gætilegri umgengni við skotelda til að forðast slys af völdum þeirra. Fyrir áramótin 1999/2000 var t.d. gefinn út bæklingur í samvinnu Árvekni – átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Löggildingarstofu og Sambands íslenskra tryggingafélaga þar sem eru upplýsingar um meðhöndlun skotelda, um öryggisútbúnað og aðrar leiðbeiningar. Var bæklingnum dreift víða og jafnframt vakin athygli á honum í fjölmiðlum. Nauðsynlegt er að finna þessum áróðri fastar skorður.

Tíðni slysa af völdum skotelda.
    Margt bendir til að slys af völdum skotelda séu nokkru algengari hér á landi en t.d. annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi.
    Miðað við framangreindar tölur var tíðni slysa af völdum skotelda á Íslandi um áramótin 1999/2000 12,7/100.000 íbúa og er þá eingöngu byggt á upplýsingum frá slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur en tölur frá öðrum landshlutum liggja ekki fyrir. Vonir standa til að upplýsingar um slys af völdum skotelda verði ítarlegri þegar samræmdri slysaskráningu um allt land verður komið á á næstu mánuðum.
    Erfitt er að fá tölur um tíðni slysa af völdum skotelda í öðrum löndum og hafa örfáar rannsóknir þess efnis birst í fagtímaritum. Í danska læknablaðinu, Ugeskrift for læger, frá desember 1997 er birt niðurstaða rannsókna Ipsen og Jörgsholm um áverka af völdum skotelda í Danmörku um áramótin 1995/1996 og 1996/1997, þar sem upplýsingar fengust frá öllum slysamóttökum í landinu. Fyrri áramótin voru áverkar 381 á 5.300.000 íbúa, þar sem 59 þurftu innlagnar við, og seinni áramótin voru áverkar 433, en 90 þurftu innlagnar við. Í um helmingi tilfella var um skaða á höndum að ræða og augnslys í um 20% tilvika. Þriðjungur áverka var af völdum ólöglegra skotelda. Tíðni slysa af völdum skotelda í Danmörku áramótin 1995/1996 var því 7,1/100.000 íbúa, en ári seinna, um áramótin 1996/1997, var tíðnin 8,2/100.000 íbúa.
    Í sömu grein er vísað til athugunar frá Umeå í Svíþjóð þar sem kemur fram að tíðni skaða af völdum skotelda er 7/125.000, þ.e. 5,6/100.000 íbúa.
    Í ársskýrslu Department of Trade and Industry í Bretlandi, þar sem greint er frá áverkum af völdum skotelda á árinu 1998, kemur fram að í öllu landinu hafði 831 leitað til heilbrigðisstofnana af völdum skotelda í kringum „Bonfire Night“ sem er í byrjun nóvember ár hvert, en þá fagnar almenningur með skoteldum. Tíðnin í Bretlandi er 1,4/100.000 íbúa. Þess ber að geta að í lok árs 1997 tók þar í landi gildi ný reglugerð þar sem aldursmörk voru hækkuð í 18 ár, settar voru reglur um hvaða skoteldar mættu vera í almennri sölu og um merkingar ákveðinna tegunda skotelda. Veruleg fækkun hefur orðið á slysum af völdum skotelda í Bretlandi sem á síðari árum náði hámarki á árunum 1994 og 1995 með 1.500–1.600 slysum í kringum þessi hátíðahöld.

Ný lög og reglur um skotelda í nágrannalöndunum.
    Á undanförnum árum hefur verið gert átak í þessum málum í ýmsum nágrannalöndum okkar og hafa lög verið endurskoðuð og nýjar reglugerðir settar.
    Helstu atriði sem hafa verið endurskoðuð varða eftirtalda þætti:
          Aldursmörk þeirra sem má selja skotelda hækkuð.
          Skoteldar flokkaðir, ákveðið hvaða skoteldar eru í hvaða flokki, hvaða flokkar skotelda eru ætlaðir til sölu til almennings og hverjir eingöngu til sýninga.
          Kröfur um öryggi, gæði, merkingu skotelda og t.d. magn púðurs í skoteldum sem flytja má inn.
          Kröfur um prófun skotelda áður en þeir fara í sölu eða vottun sem viðurkennd er innan ESB á sama máta og gert er við rafvörur.
          Kröfur til söluaðila varðandi sölu á varningnum, aldur þeirra sem afgreiða og geymslu skotelda.
    Í nokkrum löndum Evrópu hafa aldursmörk við sölu á skoteldum verið endurskoðuð. Ný reglugerð um öryggi skotelda tók gildi í Danmörku haustið 1999. Í Danmörku er sala á skoteldum til barna undir 18 ára aldri bönnuð, en heimilt að selja og afhenda börnum eldri en 15 ára stjörnuljós og aðrar álíka vörur sem flokkast undir skotelda og eru yfirleitt ætlaðar til notkunar innan húss. Í Noregi tók ný endurskoðuð reglugerð sama efnis gildi 1. júlí 1999. Í Noregi er almennt miðað við 18 ára aldursmörk við sölu á skoteldum, en 16 ár við minni háttar skotelda í flokki 1 sem eru ætlaðir til notkunar innan húss. Í Bretlandi er almennt miðað við 18 ára aldur við sölu og afhendingu skotelda og tók sú breyting gildi með nýrri reglu gerð sem sett var í árslok 1997.
    Bretland hefur verið talið í fararbroddi þeirra landa sem hafa látið sig varða öryggi skotelda og hefur breskur staðall um mismunandi flokka skotelda verið notaður sem fyrirmynd ýmissa Evrópuríkja um staðlagerð og laga- og reglugerðarumgjörð í þessum málum. Drög að evrópskum staðli um skotelda hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið og hafa Bretar leitt þá vinnu. Þessi flokkun skotelda er í notkun m.a. í Danmörku, Noregi, Bretlandi og Þýskalandi. Í drögum að nýrri endurskoðaðri reglugerð um meðferð og notkun skotelda sem verður gefin út innan tíðar af dóms- og kirkjumálaráðuneyti eru skoteldar flokkaðir á svipaðan máta.

Umsagnir um frumvarpið.
    Á126. löggjafarþingi var frumvarpið sent til umsagnar ýmissa aðila og bárust svör frá Augnlæknafélagi Íslands, Árvekni – átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga, Flugleiðum, Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, Kiwanisklúbbnum Þyrli, Akranesi, Knattspyrnufélaginu Víkingi, KR-flugeldum, Landssambandi lögreglumanna, Læknafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, slysa- og bráðamóttöku Landspítala og slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Flestir umsagnaraðilar fagna framkomnu frumvarpi og lýsa stuðningi sínum við það. Slysavarnafélagið Landsbjörg, KR-flugeldar og Knattspyrnufélag Reykjavíkur lýsa yfir stuðningi við að aldursmörk við kaup á stærri flugeldum séu almennt færð í 18 ár, en mæla með því að lægri aldursmörkum, sem miðast nú við 12 ára aldur, verði haldið. Knattspyrnufélagið Víkingur mælir hins vegar með að miða við ófrávíkjanlegt 16 ára aldursmark við sölu skotelda. Kiwanis-klúbburinn Þyrill á Akranesi lýsti sig mótfallinn þeirri breytingu sem felst í frumvarpinu.
    Í umsögn slysa- og bráðamóttöku Landspítalans, kemur fram að „óopinberar tölur, sem unnar hafa verið á vegum slysavarnafélagsins Landsbjargar sl. 2 áratugi sýna, að allstór hluti þeirra, sem meiðast af völdum flugelda og skotelda um áramót eru börn og unglingar. Það er gagnstætt leiðbeiningum flestra framleiðenda skotelda að leyfa þessum aldurshópi að handleika flugelda og fara með þá á annan hátt, enda vandmeðfarinn varningur eins og reynslan hefur sýnt.“ Látin er í ljósi von um að Alþingi samþykki frumvarpið og það verði að lögum.
    Árvekni – átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga bendir á í umsögn sinni að allt of mörg alvarleg slys verði hér á landi árlega af völdum skotelda. Þá er lögð áhersla á að reglur hér á landi um skotelda taki mið af samevrópskum reglum á þessi sviði, t.d. hvað varðar flokkun skotelda, skilgreina þurfi hvaða tegundir skotelda eru í hverjum flokki og setja strangar reglur um notkun þessarar vöru. „Reynslan í nágrannalöndum okkar sýnir að þar sem þessi mál hafa verið tekin föstum tökum hefur slysatíðni af völdum skotelda lækkað verulega.“
    Í umsögn Landssambands lögreglumanna kemur fram að „í ljósi slysa og hættu sem getur stafað af ógætilegri meðferð skotelda er full ástæða til að þrengja þau mörk sem nú eru í gildi“. Jafnframt benda lögreglumenn á að þörf er á að setja ákvæði um aldurslágmörk þeirra sem selja skotelda „því misræmi er í því að barn undir 18 ára aldri geti selt eða afhent skotelda, en geti ekki keypt eða tekið við þeim“.
    Í umsögn KR-flugelda kemur fram að KR-flugeldar og Knattspyrnufélag Reykjavíkur séu ekki mótfallin því að aðalaldursmörk við sölu skotelda til einstaklinga verði hækkuð í 18 ár og bent er á að undanfarin 2–3 ár hafi kraftmeiri flugeldar frá fyrirtækinu verið merktir til notkunar fyrir fullorðna, 18 ára og eldri, og hafi sú ákvörðun verið tekin m.a. vegna breytinga á sjálfræðisaldri. Í umsögn söluaðila skotelda kemur fram að þeir eru almennt mótfallnir því að neðri aldursmörk við sölu á skoteldum til notkunar innan húss verði færð úr 12 ára aldri í 15 ár og koma þau sjónarmið fram að það geti jafnvel falið í sér aukna hættu á fikti með ólöglega skotelda meðal barna.
    Í umsögn lögreglustjórans í Reykjavík koma fram þau sjónarmið „að breyting á borð við þá sem lögð er til í frumvarpinu sé ekki fallin ein og sér til þess að fækka slysum af völdum skotelda“. Koma fram áhyggjur af að „verði möguleikar barna til að komast yfir skotelda skertir frá því sem nú er munu þau freistast til að verða sér úti um þá með ólögmætum hætti og kunni það að auka líkur á slysum fremur en draga úr þeim“. Leggur lögreglustjórinn í Reykjavík áherslu á að eftirlit með sölu og meðferð skotelda verði aukið svo sem kostur er samfara þeim breytingum sem frumvarpið leggur til, en embættið mælir með því að það verði að lögum. Embættið leggur til að fjár til eftirlits mætti afla með sérstöku gjaldi á innflutning og sölu skotelda.
    Í umsögn Landsbjargar kemur fram að verið er að undirbúa umfangsmikið slysavarnaátak sem tengist flugeldum. Það verður kynnt rækilega um næstu áramót og er mikils vænst af.
    Söluaðilar skotelda leggja mikla áherslu á að ný reglugerð um skotelda, þar sem skoteldar eru flokkaðir, taki gildi sem fyrst, en sú reglugerð hefur verið í smíðum um nokkurt skeið á vegum dómsmálaráðuneytis.

Að lokum.
    Almenn notkun skotelda um áramót er mikil. Tíðni slysa af völdum skotelda hér á landi er há og á það sérstaklega við um slys á börnum. Aldursmörk við sölu á skoteldum til barna hér á landi eru lægri en í löndunum í kringum okkur. Nauðsynlegt er að herða öryggisreglur um meðhöndlun skotelda og reglur um sölu á skoteldum, taka upp flokkun á skoteldum og endurskoða aldursmörk við sölu þeirra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þróunar í nálægum löndum.
    Samkvæmt 32. gr. núgildandi vopnalaga er leyfilegt að selja og afhenda skotelda til barna undir 16 ára aldri nema annars sé getið í leiðbeiningum. Sala á skoteldum er óheimil til barna undir 12 ára aldri. Samkvæmt þessu er það lagt í hendur framleiðanda eða innflytjanda vörunnar að taka ákvörðun um hvort heimilt sé að selja vöruna börnum yngri en 16 ára, en það er í verkahring hans að sjá um að leiðbeiningar um meðferð vörunnar séu límdar á hana.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að aldursmörk við sölu skotelda verði færð úr 16 ára aldri til 18 ára aldurs. Þó sé heimilt að selja börnum frá 15 ára aldri skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss. Gert er ráð fyrir að ný reglugerð um skotelda sem væntanleg er innan tíðar setji skýrari reglur um flokkun skotelda. Með þeirri breytingu sem lögð er til á 32. gr. vopnalaga með þessu frumvarpi yrði það ekki lengur á valdi framleiðanda eða innflytjanda að ákvarða hvaða skotelda megi selja til yngri aldurshópsins, heldur yrði skýrt kveðið á um það í lögum og nánar útfært í reglugerð um skotelda.


Fylgiskjal I.


         

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller


um sölu og eftirlit með skoteldum.


(Þskj. 1175, 442. mál á 125. löggjafarþingi.)



     1.      Hvernig er eftirliti með sölu, gæðum, öryggi og meðferð skotelda háttað hér á landi? Hvernig fer prófun skotelda fram?
    Lögreglustjórar, hver í sínu umdæmi, hafa eftirlit með sölu skotelda og í fjölmennustu umdæmunum hafa nokkrir lögreglumenn ekki annan starfa á leyfðu sölutímabili en að líta til með skoteldasölu. Eftirlit með gæðum og öryggi er fyrst og fremst fólgið í gerðarviðurkenningu lögreglustjórans í Reykjavík sem er byggð á reynslu undanfarandi ára, lýsingu framleiðanda á vörunni og prófunum á nýjum tegundum.
    Þegar lögreglan prófar skotelda er í flestum tilvikum fengin aðstoð frá sprengideild Landhelgisgæslunnar. Einnig hafa lögreglumenn verið viðstaddir prófanir með kunnáttumönnum innflutningsaðila. Slíkar prófanir hafa oft reynst vel með tilliti til slysavarna, enda koma nýjar tegundir skotelda fram á hverju ári.

     2.      Hvernig er eftirliti með merkingum og leiðbeiningum á skoteldum háttað?
    Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um sölu og meðferð skotelda, nr. 536 19. desember 1988, er innflytjanda skylt að sjá um að allar tegundir skotelda sem hann flytur til landsins og selur séu með álímdum eða áprentuðum leiðbeiningum á íslensku. Þar á að vera stutt lýsing á eiginleikum skoteldanna og hvernig beri að nota þá svo að sem minnst hætta stafi af. Eftir þessu er litið við prófanir og skyndiskoðanir í vörugámum, á pökkunarstöðum og sölustöðum.

     3.      Hvaða reglur gilda um efnisinnihald, púðurmagn, samsetningu, stærð, þyngd og hávaðamörk skotelda sem hafa má í sölu til almennings eða til notkunar við sýningar hér á landi? Hvaða kröfur aðrar þurfa skoteldar að uppfylla til að leyfi fáist til að selja þá?
    Engar skýrar reglur eru til um efnisinnihald, púðurmagn, samsetningu, stærð, þyngd og hávaðamörk aðrar en þær sem skapast hafa við reynslu undangengin ár. Um þessi atriði verða væntanlega skýrari reglur í nýrri reglugerð.
    Við mat á því hvort tiltekin tegund skotelda skuli leyfð er litið til þess hver framleiðandinn er, hvort varan hefur fengið einhvers konar gæðavottun og eftir atvikum er varan prófuð. Sérstakar upplýsingar liggja fyrir um óvandaða og hættulega skotelda sem ekki er leyft að flytja inn.

     4.      Hverjir höfðu leyfi til að selja skotelda í smásölu hér á landi fyrir síðustu áramót, skipt eftir verslunum, félagasamtökum, einstaklingum og öðrum?
    Lögreglustjórar, hver í sínu umdæmi, veita leyfi til smásölu skotelda og hafa um það gott samstarf við eldvarnaeftirlit og slökkviliðsstjóra. Þeir sem fá leyfi til smásölu mega ekki selja vörur frá öðrum en þeim sem hafa starfsleyfi ríkislögreglustjóra til að framleiða eða flytja inn skotelda til heildsölu. Eftirtaldir aðilar fengu smásöluleyfi fyrir síðustu áramót:

Umdæmi Leyfishafi Sölustaðir
Reykjavík Björgunarsveitin Albert 1
Björgunarsveitin Ingólfur 7
Björgunarsveitin Kjölur 1
Björgunarsveitin Kyndill 5
Flugbjörgunarsveitin 4
Handknattleiksdeild Fram 1
Handknattleiksdeild Vals 1
Hjálparsveit skáta 8
KFUM og KFUK 1
Kiwanisklúbburinn Esja 1
Kiwanisklúbburinn Höfði 1
Kiwanisklúbburinn Nes 2
Knattspyrnudeild Fjölnis 2
Knattspyrnudeild Fylkis 1
Knattspyrnudeild ÍR 1
Knattspyrnudeild Leiknis 1
Knattspyrnudeild Víkings 1
Knattspyrnufélagið Þróttur 1
Austurröst ehf.* 1
Ellingsen ehf.* 1
Heildsölugallerí ehf.* 1
KR-flugeldar ehf.* 3
Netbúðir ehf.* 1
Pústverkstæðið ehf.* 1
Akranes Kiwanisklúbburinn Þyrill
Hjálparsveit skáta Akranesi
Verzlun Axels Sveinbjörnssonar*
Borgarnes Björgunarsveitin Brák
Björgunarsveitin Ok
Björgunarsveitin Heiðar
Stykkishólmur Björgunarsveitin Berserkir Stykkishólmi
Björgunarsveitin Björg Hellissandi
Lionsklúbbur Ólafsvíkur
Björgunarsveitin Sæbjörg Snæfellsnesi
Björgunarsveitin Klakkur Grundarfirði
Búðardalur Björgunarsveitin Ósk
Patreksfjörður Björgunarsveitin Blakkur Patreksfirði
Björgunarsveitin Kópur Bíldudal
Björgunarsveitin Tálkni Tálknafirði
Björgunarsveit Reykhólahrepps Reykhólum
Bolungarvík Lionsklúbbur Bolungarvíkur
Ísafjörður Upplýsingar vantar
Hólmavík Björgunarsveitin Dagrenning Hólmavík
Björgunarsveitin Björg Drangsnesi
Björgunarsveitin Káraberg Bæjarhreppi
Blönduós Hjálparsveit skáta Blönduósi
Ungmennafélagið Hvöt
Slysavarnadeildin á Hvammstanga
Sauðárkrókur Björgunarsveitin Skagfirðingasveit
Flugbjörgunarsveitin Varmahlíð
Björgunarsveitin Grettir
Siglufjörður Kiwanisklúbburinn Skjöldur
Björgunarsveitin Strákar
Akureyri Björgunarsveitin Týr Svalbarðsströnd
D.P. heildverslun ehf.* Akureyri
Björgunarsveitin Ægir Grenivík
Björgunarsveitin Súlan Akureyri
Íþróttafélagið Þór Akureyri
Björgunarsveitin Jörundur Hrísey
Björgunarsveit Árskógsstrandar
Hjálparsveitin Dalbjörg Eyjafjarðarsveit
Björgunarsveitin Dalvík,
Ungmennafélag Svarfdæla og Kiwanisklúbburinn Hrólfur
Húsavík Björgunarsveitin Stefán
Björgunarsveitin Þingey
Hjálparsveit skáta Aðaldal
Lionsklúbburinn Fontur Þórshöfn
Kiwanisklúbburinn Skjálfandi
Björgunarsveitin Pólstjarnan
Seyðisfjörður Björgunarsveitin Hérað
Björgunarsveitin Ísólfur
Eskifjörður Björgunarsveitin Gerpir Neskaupstað
Ungmennafélagið Austri, knattspyrnudeild Eskifirði
Björgunarsveitin Brimrún Eskifirði
Björgunarsveitin Ársól Reyðarfirði
Björgunarsveitin Geisli Fáskrúðsfirði
Björgunarsveitin Björgólfur Stöðvarfirði
Björgunarsveitin Eining Breiðdalsvík
Slysavarnadeildin Bára Djúpavogi
Höfn Björgunarfélag Hornafjarðar
Vík Björgunarsveitin Víkverji Vík
Björgunarsveitin Kyndill Kirkjubæjarklaustri
Hvolsvöllur Björgunarsveitin Bróðurhöndin Vestur-Eyjafjallahreppi
Björgunarsveitin Dagrenning Hvolsvelli
Björgunarsveitin Austur-Landeyjum
Flugbjörgunarsveitin Hellu
Vestmannaeyjar Björgunarfélag Vestmannaeyja
Verslunin Eyjabúð
Selfoss Björgunarsveitin Ingunn Laugarvatni
Íþróttadeild Ungmennafélags Biskupstungna
Hjálparsveitin Snækollur Flúðum
Slysavarnadeild Gnúpverja
Kiwanisklúbburinn Ölver Þorlákshöfn
Björgunarsveit SVFÍ Eyrarbakka
Hjálparsveitin Tintron Grímsnesi
Knattspyrnudeild Ungmennafélags Selfoss
Björgunarfélagið Árborg Selfossi
Hjálparsveit skáta Hveragerði
Keflavík Björgunarsveitin Suðurnes
Björgunarsveitin Sigurvon
Björgunarsveitin Eldey
Björgunarsveitin Skyggnir
Knattspyrnudeild Keflavíkur
Kiwanisklúbburinn Hof Garði
Björgunarsveitin Þorbjörn Grindavík
Hafnarfjörður Björgunarsveitin Fiskaklettur
Hjálparsveit skáta Hafnarfirði
Hjálparsveit skáta Garðabæ
Handknattleiksdeild FH
Kópavogur Netbúðir ehf.*
Lionsklúbburinn Fjölnir
Handboltafélag Kópavogs (HK)
Hjálparsveit skáta Kópavogi
G. Haraldsson ehf.*
Trúfélagið Krossinn
Austurröst ehf.*
* Fyrirtæki.

     5.      Hvaða kröfur eru gerðar til söluaðila um merkingar, leiðbeiningar og annan öryggisbúnað vegna skotelda?
    Um öryggiskröfur við flutning skotelda, við birgðastöðvar og sölustaði hafa lögreglu- og slökkviliðsstjórar, eldvarna- og vinnueftirlit, auk leyfishafa, komið sér saman um tilteknar reglur um eldvarnir, öryggisþætti og merkingar á skoteldum. Í reglunum er þess m.a. krafist, að öryggis sé gætt við geymslu, sölu og aðra notkun skotelda, ekki hvað síst við afhendingu á sölustöðum.
    Við smíði nýrrar reglugerðar um sölu og meðferð skotelda hefur verið litið til þeirra reglna sem mótast hafa í framkvæmd. Vinna við samningu reglugerðarinnar er nú á lokastigi og mun hún verða birt innan skamms.
    Ef óskað er frekari upplýsinga um stöðu mála hjá tilteknum sýslumannsembættum getur ráðuneytið látið þær í té.


Fylgiskjal II.


Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um skotelda.


(Þskj. 1176, 441. mál á 125. löggjafarþingi.)



     1.      Hve mikið magn af skoteldum hefur verið framleitt á Íslandi eða flutt til landsins síðustu fimm ár, skipt eftir tegundum (ef unnt er) og árum?
Framleiðsla.
    Framleiðsla á skoteldum á Íslandi síðustu fimm ár hefur verið sem hér segir:

Blys, stk. Gos, stk. Flugeldar, stk. Samtals
1995
77.672 720 300 78.692
1996
76.020 800 800 77.620
1997
90.930 960 530 92.420
1998
90.670 1.120 250 92.040
1999
123.605 0 0 123.605

Innflutningur.
    
Frá og með árinu 1995 til og með 1999 hafa verið flutt til landsins samtals 1.376.216 kg af skoteldum. Þar af eru flugeldar 1.159.018 kg, neyðarmerki viðurkennd af Siglingastofnun Íslands 27.400 kg, merkjablys, regnrakettur, þokublys og aðrar flugeldavörur samtals 189.798 kg.
    Heildarmagn innflutnings eftir árum:

Innflutningur, kg Cif-verð, kr.
1995
146.904 66.015.492
1996
183.008 72.674.020
1997
215.812 85.208.257
1998
278.323 99.645.433
1999
552.169 158.827.003

     2.      Hver eru framleiðslulönd innfluttra skotelda og hve mikið magn var flutt inn frá hverju landi á síðasta ári? Hvernig er eftirliti með hugsanlegum ólöglegum innflutningi á skoteldum háttað?
    Árið 1999 voru fluttir inn skoteldar eins og sést í töflunni hér á eftir:

Land kg Land kg
Bandaríkin
4.645
Japan
170
Bretland
4.679
Kína
288.755
Danmörk
2.808
Noregur
1.000
Holland
740
Spánn
3.675
Hong Kong
202.168
Sviss
748
Indland
298
Tékkland
12.172
Ítalía
513
Þýskaland
25.635
    
    Samkvæmt vopnalögum, nr.16/1998, má enginn flytja inn skotelda nema með leyfi ríkislögreglustjórans og samkvæmt reglugerð um sölu og meðferð skotelda má ekki tollafgreiða skotelda nema vörureikningur hafi verið áritaður af lögreglustjóranum í Reykjavík.
    Þegar leitað er eftir áritun vörureikninga er gengið úr skugga um að starfsleyfi frá ríkislögreglustjóra liggi fyrir. Slík leyfi eru gefin fyrirtækjum og félagasamtökum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. eftir að úttekt hefur farið fram á birgðastöð og ábyrgðarmaður verið tilgreindur.
    Lögreglustjórinn í Reykjavík, sem annast gerðarviðurkenningu á innfluttum skoteldum, heldur árlega fund með innflutningsaðilum þar sem farið er yfir hvaða skotelda skuli leyfa og er þá tekið mið af reynslu fyrri ára. Ef fyrirhugað er að flytja inn nýjar tegundir eru þær prófaðar áður en innflutningur er leyfður. Teknar eru prufur úr vörugámum og kannað hvort vörurnar eru í samræmi við vörureikninga. Þá hafa lögreglumenn farið á milli sölustaða og kannað hvað er á boðstólum. Gott samstarf hefur verið með lögreglu og tollgæslu og til stendur að fá menn frá tollgæslunni til að sitja hina árlegu fundi. Einnig hefur mjög góð samvinna verið með lögreglunni í Reykjavík og lögregluliðum á Akranesi, í Kópavogi, Keflavík og Hafnarfirði og slökkviliðum (eldvarnaeftirliti) á sömu stöðum.

     3.      Eru til reglur um flokkun skotelda? Ef svo er, í hverju eru þær fólgnar?
    Ekki eru til nákvæmar reglur um flokkun skotelda, aðrar en þær sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefur ákveðið í samráði við innflytjendur og fleiri aðila. Í drögum að nýrri reglugerð um skotelda, sem er langt komin í vinnslu, er hins vegar gert ráð fyrir viðauka þar sem skoteldar eru flokkaðir.
    Til þessa hafa mótast vinnureglur þar sem skoteldum hefur verið skipt í flokka, þ.e. tegundir sem bannað er að framleiða, flytja inn og selja, skotelda sem eingöngu eru ætlaðir til nota í neyð, skotelda sem aðeins eru leyfðir fyrir kunnáttumenn til nota við skoteldasýningar og skotelda til að selja almenningi. Í drögum að nýrri reglugerð er að finna mun ítarlegri flokkun og er þar nákvæmlega tilgreint hvaða tegundir má selja og til hvaða nota.

     4.      Er sala einhverra tegunda eða flokka skotelda til almennings háð takmörkunum? Hvaða tegundir skotelda eru bannaðar á Íslandi?
    Takmarkanir eru á sölu skotelda samkvæmt vopnalögum til barna undir 16 ára aldri og öll sala á skoteldum til barna undir 12 ára aldri er bönnuð.
    Í 5. gr. reglugerðar um sölu og meðferð skotelda, nr. 536/1988, er að finna upptalningu á skoteldum sem er bannað að flytja inn, svo sem „kínverja“, sprengikúlur og reyk- og lyktarsprengjur, svo og upptalningu á skoteldum sem aðeins er leyft að nota við skoteldasýningar, en í samráði við innflytjendur og fleiri hefur verið farið eftir reglum sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefur markað.

     5.      Hvernig er fræðslu til almennings um mögulega hættu af völdum skotelda háttað?
    Ekki er hægt að segja að til sé markviss fræðsla um hættu af völdum skotelda. Þess skal þó getið að innflytjendur, læknar í slysamóttöku, lögregla, fjölmiðlafólk og slysavarnasamtök hafa lagt sitt af mörkum til að koma varnaðarorðum til almennings um hættu af skoteldum. Um síðustu áramót stóð dómsmálaráðuneytið, í samstarfi við Árvekni (átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga), Löggildingarstofu og Samband íslenskra tryggingafélaga fyrir fræðslu um meðhöndlun skotelda. Gefinn var út bæklingur í því skyni að minna landsmenn á þá hættu sem stafað getur af rangri og óvarlegri notkun skotelda.
    Til greina kemur að mæla sérstaklega fyrir um skyldur innflutnings- og söluaðila til að annast upplýsingamiðlun til notenda skotelda og auka þar með ábyrgð þeirra frá því sem verið hefur.

     6.      Er fyrirhugað að hækka aldursmörk barna sem leyft er að kaupa skotelda?
    Til að hækka aldursmörk þeirra sem mega kaupa skotelda þarf að breyta núgildandi vopnalögum, en tillögur um slíka lagabreytingu hafa ekki komið fram.

Annað.
    Eins og fram kemur hér að framan hefur í framkvæmd verið farið eftir ýmsum reglum sem mótast hafa á undanförnum árum og samkomulag hefur orðið um hjá lögreglu og umsagnar- og hagsmunaaðilum. Allar miða þær að auknu öryggi í meðferð skotelda og í drögum að nýrri reglugerð um skotelda er leitast við að samræma og endurbæta þessar reglur. Við reglugerðarsmíðina hefur verið tekið mið af alþjóðlegum reglum og þeirri hefð sem hefur skapast hér á landi í meðferð skotelda. Drög að reglugerðinni hafa verið send fjölmörgum umsagnaraðilum sem hafa komið með margar góðar ábendingar sem flestar stuðla að auknu öryggi.
    Ef óskað er frekari upplýsinga um stöðu mála hjá tilteknum sýslumannsembættum getur ráðuneytið látið þær í té.


Fylgiskjal III.


Svar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller


um tíðni slysa af völdum skotelda.


(Þskj. 695, 334. mál á 125. löggjafarþingi.)



    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve mörg slys hafa orðið af völdum skotelda sl. tíu ár, að síðustu áramótum meðtöldum?
     2.      Hvers eðlis hafa þessi slys verið og hvernig skiptast þau eftir aldursflokkum?
     3.      Hvaða tegundir skotelda hafa valdið slysunum?
     4.      Hver er tíðni slysa af völdum skotelda á Íslandi í samanburði við tíðni þeirra annars staðar á Norðurlöndum, í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi?


    Tíðni slysa af völdum skotelda á Íslandi undanfarinn áratug er ekki að fullu þekkt. Í samráði við landlækni hefur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur verið tekið saman yfirlit yfir sprengjuáverka um síðastliðin áramót samkvæmt gögnum slysa- og bráðamóttöku sjúkrahússins en ekki hefur gefist tóm til að fara í skýrslur frá fyrri áramótum. Skoðaðar voru komur allra sjúklinga með áverka eftir sprengjuslys í móttökuna frá kl. 12 á gamlársdag 1999 til kl. 12 á nýársdag 2000. Þennan sólarhring komu 147 manns í móttökuna. Þar af komu 102 (69%) með áverka, 14 í fylgd lögreglu vegna gruns um ölvunarakstur og aðrir vegna veikinda. Af þeim sem voru með áverka reyndust 23 (23%) hafa slasast af einhvers konar sprengjum, blysum, tertum eða flugeldum. Karlmenn voru í meiri hluta (18) og voru flestir í aldurshópunum 3–10 ára (9) og 37–47 ára (10). Andlitsáverkar voru algengastir (13) og/eða augnáverkar (6), samtals í 83% tilvika. Hendur og fingur urðu fyrir barðinu á sprengjunum í 4% tilvika. Nær alltaf var um einhvern bruna að ræða en 11 hlutu sár eða skurði og fimm beinbrot. Þrjá slasaða þurfti að leggja inn á sjúkrahús. Enginn hinna slösuðu hafði notað hlífðargleraugu og aðeins einn hlífðarhanska. Venjulegir flugeldar áttu þátt í níu slysum, svokallaðar tertur í fjórum, sprengjur í fimm, handblys eða hvellhettur (kínverjar) í tveimur en í tveimur tilvikum var óvíst um tegund. Tívolísprengjur ollu tveimur alvarlegum slysum.
    Ekki er vitað hversu mikið af sprengjum var notað um síðustu áramót á landinu en sem betur fer virðast hlutfallslega fáir hafa slasast. Hinir slösuðu notuðu ekki hefðbundinn öryggisbúnað, eins og hlífðargleraugu og hanska. Stórar sprengjur ollu alvarlegustu áverkunum.
    Að áliti yfirlæknis slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur voru slys heldur fleiri um síðustu áramót en árin á undan en nákvæmar upplýsingar liggja ekki fyrir um fjöldann.
    Hliðstæðar upplýsingar hafa fengist frá augnlækningadeild Landspítalans en þangað komu sex manns um þessi áramót með augnáverka eftir sprengjur og skotelda, þar af þrír sem komu ekki frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Enginn þeirra notaði öryggisgleraugu. Tveir hafa hugsanlega hlotið varanlegan augnskaða. Í fjórum tilvikum var um stóran flugeld eða tívolísprengju að ræða.
    Nokkrar upplýsingar eru til í birtum heimildum um slys af völdum skotelda í öðrum löndum, þótt ekki hafi tekist að finna heimildir um samræmda framsýna skráningu. Í nýlegri danskri grein er lýst tveimur sjúklingum er hlutu blæðingar í heila af völdum áverka frá skoteldum. Í Viktoríuríki í Ástralíu voru áverkar af völdum skotelda kannaðir árin 1988–96. Flestir hinna slösuðu voru börn (meðalaldur 9 ár) og flest barnanna voru strákar, eða 71%. Algengasti áverkastaður var höfuð og brunar voru algengasta tegund áverka. Flestir áverkanna voru frá smásprengjum á borð við hvellhettur.
    Í nýlegri rannsókn í Finnlandi voru hvers konar sprengiáverkar kannaðir og reyndust tæplega 30% þeirra vera af völdum skotelda. Tíðni alvarlegra áverka sem leiddu til sjúkrahússinnlagnar var innan við eitt tilvik á hverja 100.000 íbúa á ári.
    Könnun hliðstæð þeirri sem gerð var á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og áður er minnst á var gerð í Óðinsvéum í Danmörku um áramótin 1996–97. Í þeirri könnun voru 20% áverkanna á augum og 50% handáverkar. Rúmlega 60% alvarlegra áverka er leiddu til sjúkrahúsvistar voru af völdum ólöglegra skotelda. Hins vegar leiddi nýleg skosk rannsókn á augnslysum barna í ljós að ekkert þeirra var af völdum skotelda enda munu þeir ekki vera í höndum almennings þar í landi.
    Af þessu má ráða að skoteldaslys eru nokkurt vandamál á Íslandi eins og í nálægum löndum, þar sem skoteldar eru notaðir af almenningi. Þó að tölur liggi ekki fyrir er ekkert sem bendir til að alvarlegum áverkum, þar á meðal augnslysum, hafi fjölgað. Áramótin 1988–89 voru verst að þessu leyti, en þá urðu a.m.k. fimm mjög alvarleg augnslys af „tívolísprengjum“ sem svo voru nefndar. Þær voru teknar af markaði og hefur alvarlegum augnslysum fækkað í kjölfar þess. Að áliti augnlækna hefur öflugur áróður fyrir notkun hlífðargleraugna einnig haft áhrif til að fækka augnslysum. Þetta virðist hins vegar hafa gleymst fljótt, enginn þeirra sem hlutu augnáverka um síðustu áramót hafði notað hlífðargleraugu, eins og áður er getið.
    Ástæða virðist því vera til að hafa uppi sérstakar varúðarráðstafanir um næstu áramót til að sporna við slysum af völdum skotelda. Óvíst er hvort bann við notkun þeirra bæri árangur, enda kemur fram í einni af rannsóknunum sem til var vitnað hér að framan að um 60% alvarlegra slysa voru af völdum ólöglegra skotelda.