Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 137  —  137. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42/1978, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)1. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglustjóri, þar sem aðili á lögheimili, lætur af hendi meistarabréf að fenginni umsögn næsta iðnráðs eða iðnráðs Reykjavíkur, svo og iðnaðarleyfi.

2. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Stofna má iðnráð í sveitarfélagi með yfir 5.000 íbúa. Skal hlutverk þess vera að veita lögreglustjórum aðstoð við að halda uppi eftirliti með ákvæðum laga þessara varðandi handiðnað og einnig annarra laga, vera stjórnvöldum almennt til ráðuneytis um mál er iðnað varða og veita eftir atvikum öðrum aðilum aðstoð á sviði iðnaðarmála. Leita skal til næsta iðnráðs eða iðnráðs Reykjavíkur. Stofna má eitt iðnráð fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélög sem fullnægja framangreindum skilyrðum um íbúafjölda.
    Í iðnráði skulu vera fulltrúar frá löggiltum iðngreinum og skulu þeir kosnir til 4–6 ára. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um kosningu til iðnráða og starfssvið þeirra.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er stefnt að nokkrum breytingum á ákvæðum iðnaðarlaga um iðnráð vegna þróunar í starfsemi þeirra á undanförnum árum. Skylt hefur verið að kjósa iðnráð í kaupstöðum en með frumvarpinu er í staðinn gert ráð fyrir heimild til að stofna iðnráð í sveitarfélagi með yfir 5.000 íbúa og að hafa eitt iðnráð fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélög sem fullnægja skilyrðinu um íbúafjölda. Jafnframt er kveðið ítarlegar á um hlutverk iðnráða með hliðsjón af ákvæðum reglugerðar nr. 217/1971, um kosningu og starfssvið iðnráða. Þá er tekið inn í frumvarpið ákvæði um að leita skuli til næsta iðnráðs eða iðnráðs Reykjavíkur. Loks er kveðið á um það að kosning í iðnráð skuli vera til 4–6 ára en í gildandi reglugerð hefur verið miðað við 4 ár.
    Iðnráðum hefur farið fækkandi og vorið 2001 voru einungis starfandi iðnráð í Reykjavík, Akureyri og Hafnarfirði, fyrst og fremst við að veita umsögn um umsóknir iðnaðarmanna um meistarabréf. Viðvíkjandi ákvæði frumvarpsins um sveitarfélag með yfir 5.000 íbúa skal tekið fram að á árinu 1999 voru alls níu sveitarfélög með þann fjölda, þ.e. 1. Reykjavík, 2.
Kópavogur, 3. Hafnarfjörður, 4. Reykjanesbær, 5. Akureyri, 6. Garðabær, 7. Mosfellsbær, 8. Akranes og 9. Árborg. Fimm hin fyrsttöldu voru með yfir 10.000 íbúa. Alls voru þá tuttugu sveitarfélög með yfir 2.000 íbúa og voru Egilsstaðir minnsta sveitarfélagið með þá íbúatölu. Þar eð erfitt hefur verið að halda uppi starfsemi iðnráða í litlum sveitarfélögum þykir rétt að miða nú við sveitarfélög með yfir 5.000 íbúa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á iðnaðarlögum,
nr. 42/1978, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er m.a. að rýmka starfsskilyrði iðnráða og tryggja þar með betur starfsgrundvöll þeirra. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.