Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 157  —  157. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gerð svæðisskipulags fyrir landið allt.

Flm.: Ólöf Guðný Valdimarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að hlutast til um að gert verði svæðisskipulag fyrir þau svæði á landinu sem ekki hafa þegar verið skipulögð. Kannað verði hvernig komið verði til móts við sveitarfélögin til að standa straum af kostnaði við svæðisskipulagsgerð umfram það sem kveðið er á um í skipulagslögum.

Greinargerð.


    Stefnumótun og áætlanagerð er forsenda markvissrar framtíðarþróunar. Skipulögð áætlun um einstaka þætti framkvæmda er forsenda markvissrar ákvarðanatöku og skynsamlegrar stýringar á uppbyggingu. Skipulagsferlið er eitt öflugasta stjórntæki til að stýra byggðaþróun.
    Í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga segir:
    „Markmið laga þessara er:
    að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi,
    að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“.
    Forsenda þess að ná fram viðkomandi markmiðum er að skipulagsáætlun liggi fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun var einungis búið að vinna svæðisskipulag af hluta landsins í lok árs 2000.
    Svæðisskipulag er skipulagsáætlun sem tekur yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Hlutverk svæðisskipulags er að samræma stefnu um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar á svæðinu á minnst 12 ára tímabili.
    Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skal svæðisskipulag gert að frumkvæði sveitarstjórna eða Skipulagsstofnunar. Sveitarfélög eru aftur á móti misjafnlega í stakk búin til að eiga frumkvæði að slíku. Því er lagt til að yfirstjórn skipulagsmála í landinu eigi frumkvæði að því að svæðisskipulagsvinna fari í gang í þeim sveitarfélögum þar sem hún er ekki þegar hafin.
    Skipulagsáætlun er stefnumótandi áætlun um byggðaþróun og landnotkun og þannig grundvöllur markvissrar ákvarðanatöku á öllum stigum stjórnsýslunnar.